Arla með risasamning
17.02.2016
Bretlandsdeild Arla, stærsta samvinnufélags kúabænda í Norður-Evrópu, gerði í liðinni viku risasamning við verslunarkeðjuna ASDA en um er að ræða þriggja ára samning. Samningur þessi tryggir Arla sölu á 1,5 milljörðum kílóa af rjóma og margskonar drykkjarmjólk segir í fréttatilkynningu félagsins. Þetta er lang stærsti samningur sem gerður hefur verið undanfarin ár en einungis einni viku áður hafði helsti samkeppnisaðili Arla í Bretlandi, afurðafélagið Müller, náð að skjóta Arla ref fyrir rass og náð mikilvægum samningi við verslunarkeðjuna Tesco.
Þegar Müller, sem er afurðafélag í einkaeigu, náði framangreindum sölusamningi við Tesco voru margir spekúlantar undrandi á því að Arla skildi lenda undir í glímunni við Müller. Nú er skýringin komin á þessu háttarlagi enda þurfti Arla að tryggja að ASDA fengi þá mjólk sem félagið var að semja um sölu á og mátti því vel við því að missa Tesco frá sér. Samningur Arla við ASDA er mikið ánægjuefni fyrir bændurna sem eiga félagið enda er mjólkurverðið fest í samninginum til næstu þriggja ára/SS.