
Arla með risafjárfestingar á árinu
08.02.2017
Samvinnufélagið Arla er ekki af bakið dottið og þó svo að félagið sé nú ekki að vaxa verulega með yfirtöku eða uppkaupum þá tilkynnti félagið í liðinni viku að árið 2017 yrði mikið uppgangsár fyrir því. Félagið ætlar að fjárfesta á árinu fyrir rúma 40 milljarða íslenskra króna sem er mesta fjárfesting sem Arla hefur ráðist í á einu ári frá stofnun þess. Mest af þessum gríðarlegu fjármunum munu fara til enduruppbyggingar á aðstöðu sem er komin til ára sinna en stjórn félagsins telur nauðsynlegt að ráðast í verulegar endurbætur á framleiðsluaðstöðu félagsins í bæði Danmörku, Svíþjóð, Englandi og Þýskalandi.
Í tilkynningu frá stjórn Arla segir að tilgangurinn með hinni umfangsmiklu endurnýjun á framleiðsluaðstöðu félagsins sé að styrkja framleiðslu helstu vörumerkja Arla og gera félagið enn betur í stakk búið til þess að takast á við samkeppni bæði innan Evrópu en einnig á helstu mörkuðum utan Evrópu. Þar horfir stjórnin sérstaklega til þess að selja mjólkurafurðinar á forsendum eignarhalds Arla, en mörg af helstu samkeppnisfyrirtækjum Arla eru í einkaeigu eða hlutafélög/SS