Arla lokar afurðastöð í Þýskalandi
28.11.2011
Stjórn Arla hefur nú ákveðið að loka einni af fjórum afurðastöðvum Allgäuland-Käserein deildar sinnar í Þýskalandi í tengslum við hagræðingaraðgerðir. Er þessi aðgerð talin nauðsynleg til þess að tryggja stöðu kúabændanna til lengri tíma litið og um leið mun Arla færa yfirstjórn afurðamála Allgäuland-Käserein deildarinnar í Þýskalandi til Düsseldorf.
Afurðastöðin sem nú mun loka er í Riedlingen og þar hafa til þessa verið unnin 60 þúsund tonn af geymsluþolnum ferskvörum en stöðin hefur auk þess 6 þúsund tonna ostaframleiðslugetu. Um er að ræða mikla breytingu hjá Allgäuland-Käserein enda fækkar starfsmönnum um þriðjung eftir aðgerðina en fyrir störfuðu þar 306 manns.
Í hinni þýsku Allgäuland-Käserein deild Arla eru 1.338 kúabændur og nemur framleiðsla þeirra 232 milljónum lítra á ári eða sem nemur 174 þúsund lítrum pr. bú og eru því hinir þýsku bændur með verulega mikið minni kúabú en bæði sænskir og danskir kollegar þeirra sem einnig eiga Arla. Fjöldi kúabænda sem standa að þessu stóra samvinnufélagi er nú um 10 þúsund sem skiptist nokkuð jafnt á milli Svíþjóð, Danmerkur og Þýskalands, en Arla er með tvær deildir í Þýskalandi/SS.