Beint í efni

Arla lækkar mjólkurverð til bænda um 12%

14.01.2009

Á fimmtudaginn var, 8. janúar ákvað stjórn Arla Foods að lækka mjólkurverð til bænda um 12%, úr 2,638 dkk pr. kg í 2,324 dkk pr. kg. Verðlækkunin tekur gildi frá 1. janúar sl. Í íslenskum krónum fer verðið úr 59,65 kr niður í 52,55 kr á hvert kg mjólkur. Verð á lífrænni mjólk verður 3,003 dkk eftir lækkun (67,90 isk). Ástæður lækkunarinnar eru m.a. dapurt ástand efnahagsmála á heimsvísu sem leiðir til að neytendur velja ódýrari vörur og sterkt gengi dönsku krónunnar, en hún er tengd evru með 2,25% vikmörkum. Þá hafa melamín-hryðjuverkin í Kína valdið verðfalli og neyslusamdrætti í SA-Asíu.

Ove Møberg, stjórnarformaður Arla gerir ráð fyrir að þessi mikla verðlækkun hafi verulega neikvæð áhrif á afkomu framleiðenda, en hún hafi því miður verið óumflýjanleg. Peder Tuborgh forstjóri félagsins segir að allra leiða verði leitað til að ná niður kostnaði. Staða Arla Foods sé þó mjög sterk eftir sem áður.

 

Lykiltölur Arla Foods 2008:

  • Velta 1.062 milljarðar ISK (ca. 70-föld velta MS)
  • Hagnaður 15,8 milljarðar ISK, u.þ.b. 1,5% af veltu fyrirtækisins.
  • Fjöldi starfsmanna 16.559
  • Fyrirtækið er samvinnufélag í eigu 8.522 kúabænda í Danmörku og Svíþjóð.