Arla kaupir afurðastöð af samkeppnisaðila!
02.02.2011
Arla hefur nú keypt upp enn eina afurðastöðina, að þessu sinni frá Milko í Sundsvall í Svíþjóð. Arla tekur stöðina yfir 1. júlí nk., en fyrst þurfa samkeppnisyfirvöld að samþykkja samkomulag fyrirtækjanna. Milko hafði áður tilkynnt að afurðastöðinni yrði lokað en forsvarsmenn Arla, sem er að fullu í eigu kúabænda, ákváðu þá að bjóðast til þess að taka stöðina yfir. Eftir nokkuð langar viðræður tókst svo samkomulag um afurðastöðina og
auk þess um samvinnu fyrirtækjanna.
Frá og með 1. júlí nk. mun Arla framleiða bæði mjólk og rjóma fyrir Milko í Sundsvall stöðinni enda búast forsvarsmenn Arla við verulega mikilli aukningu í innvigtun mjólkur á svæðinu til afurðastöðvarinnar. Ástæðan er fyrst og fremst vaxandi áhugi sænskra bænda á að leggja mjólk inn hjá Arla. Félagið hefur lagt mikla áherslu á að ná til fleiri sænskra kúabænda, en í Svíþjóð eru mun fleiri afurðastöðvafyrirtæki en t.d. í Danmörku.