Beint í efni

Arla hefur ostavinnslu úr ógerilsneyddri mjólk

07.02.2011

Dansk-sænski mjólkurrisinn Arla Foods er að hefja framleiðslu á osti úr ógerilsneyddri mjólk. Heilbrigðiseftirlitið í Danmörku hefur gefið grænt ljós á framleiðsluna. Vöruþróunin hefur staðið síðan árið 2006 en framleiðsla á osti úr ógerilsneyddri mjólk lagðist af á árum síðari heimsstyrjaldarinnar og hefur alfarið verið bönnuð síðan árið 1967. Reiknað er með að sala á ostinum til veitingahúsa og sælkeradeilda smásöluverslana hefjist í byrjun næsta árs. Bragð ógerilsneyddra osta er nokkuð annað en þeirra hefðbundnu úr gerilsneyddri mjólk, vegna þeirra breytinga sem verða á mjólkinni

við gerilsneyðingu. Hins vegar gerir ógerilsneydda framleiðslan mjög miklar kröfur til fæðuöryggis á öllum stigum framleiðslunnar. Því er náð fram annars vegar með mjög öflugu innra eftirliti og hins vegar með nákvæmri lýsingu og greiningu á framleiðsluferlinu, sem heilbrigðiseftirlitið hefur greiðan aðgang að.

 

Arla hefur valið 100 kúa bú í þorpinu Sig á Vestur-Jótlandi til að leggja til mjólkina í þessa framleiðslu. Ostaframleiðslan sjálf hefst í vor í mjólkursamlagi Arla í Tistrup við Varde, þar sem fyrirhugað er að koma upp aðstöðu fyrir þessa vinnslu á næstu vikum.

 

Heimild: Fréttatilkynning frá Arla Foods.