Arla hækkar verð til bænda enn á ný
24.11.2010
Þeir kúabændur sem leggja inn mjólk hjá Arla gleðjast þessa dagana en stjórn Arla hefur ákveðið að hækka verð til bænda enn á ný á þessu ári. Að þessu sinni nam hækkunin 10 dönskum aurum eða um 2 krónum á lítrann en þetta er fimmta mjólkurverðshækkunin á árinu hjá Arla. Félagið hefur alls hækkað mjólkina um 0,475 Dkr/lítrann á árinu eða um nærri 10 Íkr. Þrátt fyrir þessa hækkun núna, sem er látin gilda frá síðustu mánaðarmótum, er enn gert ráð fyrir 1,2 milljörðum danskra króna í hagnað á þessu ári eða um
25 milljörðum íslenskra króna.
Þegar verðlistar Arla eru skoðaðir vekur nokkra athygli að mjólk frá kúm sem fara út á sumrin og er sérstaklega seld undir merkinu ”Lærkevangen” ber ekki hærra afurðaverð en önnur mjólk, þrátt fyrir að það mætti ætla annað. Hæsta verð hjá Arla nú eru 70,0 Íkr/lítrann (3,384 Dkr/l) fyrir lífrænt framleidda mjólk og 58,0 kr/lítrann (2,805 Dkr/l) fyrir hefðbundna framleiðslu.
Til fróðleiks má geta þess, með afurðastöðvaverðið til hliðsjónar, að í Danmörku kostar hefðbundið kjarnfóður komið heim á hlað (15,5% prótein, 5,0% fita og 10,9% tréni) 1,8 Dkr/kg eða um 37,2 Íkr.