Beint í efni

Arla hækkar mjólkurverð til bænda um 0,10 DKK

23.11.2009

Stjórn Arla ákvað á fundi sínum 17. nóvember sl. að hækka mjólkurverð til bænda um 10 aura á líter, 2,47 ískrónur, frá 30. nóvember n.k. Eftir það verður mjólkurverðið 229,3 aurar pr. kg fyrir hefðbundna mjólk (56,72 ISK) og 287,2 aurar pr. kg fyrir lífræna mjólk (71,05 ISK). Ástæða hækkunarinnar er einkum hækkanir á dufti, en mjólkur- og undanrennuduft hefur hækkað í verði að undanförnu. Verðið hækkaði síðast 5. október sl. af sömu ástæðu.

Forstjóri fyrirtækisins, Peder Tuborgh, segir að félagsmenn þurfi mjög á hærra mjólkurverði að halda, nú hafi skapast skilyrði fyrir hærra verði með batnandi aðstæðum á heimsmarkaði. Hann dregur þó ekki fjöður yfir að árið 2009 verði félaginu og eigendum þess erfitt og undirstrikar að markaðsaðstæður séu mjög erfiðar. Unnið sé að því dag hvern að lækka kostnað innan fyrirtækisins, jafnhliða sem unnið sé að því að ná betra verði á markaði. Þrátt fyrir að betur gangi í sölu á iðnaðarhráefni eins og dufti, sé nauðsynlegt að ná fram hærra verði á smásölumarkaði. Það sé ekki létt verk en að því sé unnið hörðum höndum. Þá hafi þessi verðhækkun ekki áhrif á markmið fyrirtækisins um að ná 900 milljóna DKK hagnaði (22,3 mia. ISK) á árinu 2009. Sá hagnaður sé nauðsynlegur til að tryggja viðunandi arðgreiðslur til félagsmanna og tryggja styrkan efnahag fyrirtækisins.

 

Heimild: arlafoods.dk