
Arla fjárfestir fyrir 62 milljarða króna
19.02.2018
Arla Foods, samvinnufélag 11 þúsund kúabænda í 7 löndum í Norður-Evrópu, mun standa í stórræðum næstu árin en stjórn félagsins hefur nú ákveðið að fara út í mestu fjárfestingar í sögu félagsins. Alls verður rúmum 60 milljörðum íslenskra króna varið til uppbyggingar og stækkunar á afurðastöðvum félagsins næstu þrjú árin og mun þegar í ár verða farið í 30 milljarða króna fjárfestingar.
Tilgangurinn með þessum umsvifamiklu fjárfestingum er að efla framleiðslumöguleika félagsins á mjólkurvörum fyrir útflutningsmarkaði og er þá sérstaklega horft til Mið-Austurlanda, ákveðinna landa í Afríku, til Kína og fleiri landa í Asíu ásamt Bandaríkjanna. Stærsti hluti fjárfestingarinnar fer til uppbyggingar á afurðastöðvum félagsins í Danmörku en einnig verður byggt upp í Bretlandi, Svíþjóð og Þýskalandi/SS.