Beint í efni

Arla fjárfestir fyrir 45 milljarða í ár

30.01.2013

Undanfarið höfum við greint frá stækkunaráformum ýmissa afurðastöðva, sem eru að undirbúa stóraukna mjólkurframleiðslu árið 2015 þegar kvótakerfi Evrópusambandsins verður lagt af. Forsvarsmenn Arla hafa nokkuð haldið sig til hlés í umræðunni um hvað taki við eftir 2015 en nú hefur hinsvegar fjárfestingaráætlun þessa árs verið birt. Alls ætlar félagið bæta við framleiðslugetuna, auka hagkvæmni og fjárfesta í þróun fyrir um 45 milljarða íslenskra króna.

 

40% af fjármununum verður varið til aukinnar skilvirkni í afurðastöðvum Arla en stærsta einstaka framkvæmdin er ný afurðastöð í Nr. Vium í Danmörku. Þar verða eingöngu framleidd margskonar stoðefni sem unnin eru úr mysu. Þá verða bæði duft- og smjörframleiðsludeildir afurðastöðvarinnar í Pronsfeld í Þýskalandi stækkaðar, sem og ostaframleiðsluaðstaðan í Taulov. Auk þessa verður varið töluverðum upphæðum í að gera allar afurðastöðvar Arla, 71 talsins, umhverfisvænni en markmið félagsins er að minnka losun koltvísýrings um 2% á árinu/SS.