Beint í efni

Arla fimmfaldar söluna í Kína

26.06.2012

Heimsókn forseta Kína til Danmerkur á dögunum hefur sannarlega leitt til tækifæra fyrir þarlend fyrirtæki, m.a. fyrirtæki og félög í landbúnaði. Bæði gerði danska sláturfélagið Danish Crown stórsamning á dögunum við kínverskt fyrirtæki en nú hefur Arla einnig landað risa samningi sem er metinn á 75 milljarða íslenskra króna!

  

Samningurinn nær til ársins 2016 og er á milli Arla og Mengniu Dairy, stærsta afurðafélags Kína auks COFCO sem er kínverskt matvælafyrirtæki. Jafnframt kaupir Arla hlut í Mengniu fyrir 36 milljarða íslenskra króna og eignast þar með um 6% í þessu risafyrirtæki í mjólkuriðnaði. Mikill slagur var á milli afurðafélaga víða um heim um samninginn við Mengniu enda er kínverski markaðurinn grundvöllur vaxtar hjá mörgum afurðafélögum í mjólkuriðnaði í heiminum.

 

Fyrir var Arla á kínverska markaðinum, en aðallega með mjólkurduft. Nú mun hinsvegar hefjast útflutningur á fleiri mjólkurvörum en einnig á þekkingu. Þannig stendur m.a. til að yfirfæra gæðastjórn við mjólkurframleiðslu, sk. Arlagården, yfir á kínverskar aðstæður og koma þannig kínverskum kúabændum hratt inn í nútímaframleiðsluaðferðir og um leið mun þarlendum bændum standa til boða ráðgjöf frá Arla varðandi mjólkruframleiðslu/SS.