Beint í efni

Arla færist nær markmiðum sínum

14.09.2011

Arla hefur nú færst nær því að taka yfir þýsku afurðastöðina Allgäuland-Käserein, eftir að félagsfundur kúabænda í sjöttu og síðustu deild hins þýska félags samþykkti samrunann í fyrradag.

 

Eins og naut.is greindi frá í júlí hefur Arla, sem er samvinnufélag kúabænda í afurðavinnslu í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi, á liðnum misserum verið í örum vexti og var síðasta stækkun Arla samruninn við þýsku afurðastöðina Hansa-Milch nú í vor. Þá bíða kúabændur í Danmörku og Svíþjóð eftir niðurstöðu samkeppnisstofnunar í Svíþjóð um samruna félagsins við Milko, en það félag var í afar erfiðri fjárhagsstöðu og blasti við gjaldþrot rétt eins og við Allgäuland-Käserein.
 
Áður en af samrunanum getur orðið þarf þó að fá grænt ljóst samkeppnisyfirvalda í Þýskalandi, en líklegt má telja að það veiti heimild sína fyrir samrunanum enda blasir ekki annað við en gjaldþrot Allgäuland-Käserein og ljóst að það myndi amk. ekki gagnast nokkrum aðila. Nánar má lesa um samrunann í frétt naut.is með því að smella hér/SS.