Beint í efni

Arla eykur framleiðslugetuna í Bandaríkjunum

07.09.2011

Í síðustu viku tók hið norræna afurðafélag Arla nýja framleiðslulínu í notkun í afurðastöð sinni í Wisconsin í Bandaríkjunum. Þar á félagið afurðastöðina Dofino sem er sérhæfð í ostaframleiðslu, en Arla keypti Dofino árið 2006. Nú hefur framleiðslugeta Dofino verið aukin og verður heildarframleiðslugeta félagsins eftir breytinguna 15.000 tonn af osti árlega og er með litlum breytingum mögulegt að auka framleiðsluna upp í 20.000 tonn árlega ef á þarf að halda.
 
Dofino er staðsett eins og áður segir í Wisconsin fylki, nánar tiltekið í smábænum Hollandtown á austurströnd Bandaríkjanna. Rekstur ostagerðarinnar hefur gengið afar vel á undanförnum árum og þrátt fyrir erfitt efnahagsástand tókst félaginu að auka söluna um 10% árið 2009 og um 2% til viðbótar í fyrra. Alls leggja 70 kúabú inn mjólk hjá Dofino og er sérstaða þess m.a. sú að öll mjólk sem félagið tekur við er framleidd án hormóna.
 
Nú er svo komið að hlutdeild Arla á hinum Bandaríska ostamarkaði nemur 1% og var heildarvelta félagsins þar árið 2010 14,2 milljarðar íslenskra króna. Ljóst er að félagið ætlar sér stóra hluti á næstu árum í Bandaríkjunum með sérstaka áherslu á ostana sína gouda, edamer og hinn þekkta danska havarti ost. 70% þessara osta eru framleiddir í Dofino afurðastöðinni, en hinir koma með innflutningi frá Danmerkurdeild Arla/SS.