Beint í efni

Arla eflir starfsemi sína í Bandaríkjunum

22.07.2010

Arla, dansk-sænska afurðastöðin, er nú að stækka vinnslugetu sína í afurðastöð sinni í Hollandtown í Wisconsin til þess að fylgja eftir vaxandi eftirspurn eftir gæðaostum. Reiknað er með að afurðastöðin verði komin í fullan gang um mitt næsta ár en góður gangur hefur verið í sölu Arla í Bandaríkjunum, þrátt fyrir efnahagsástandið. Þannig tókst fyrirtækinu að auka söluna um 10% á síðasta ári og það sem

af er þessu ári er salan 20% meiri en á sama tíma í fyrra.

 

Söluárangurinn er í raun einstakur í þessu efnahagsástandi, enda eru ostarnir af dýrari gerðinni og seldir í Bandaríkjunum sem hágæðavara líkt og íslenskt skyr. Almennt féll sala á sambærilegum hágæðavörum í Bandaríkjunum í kjölfar efnahagsástandsins, en með því að hefja sölu ostanna í stórum verslunarkeðjum tókst Arla að snúa vörn í sókn.

 

Arla rekur nú tvær afurðastöðvar í Bandaríkjunum, annars vegar í Muskegon í Michigan og svo í Hallandtown eins og áður segir. 70% af seldum vörum frá Arla koma úr þessum tveimur afurðastöðvum en 30% seldra vara eru framleiddar hjá Arla í Danmörku og fluttar til Bandaríkjanna, aðallega ostar.

 

Í fréttatilkynningu Arla kemur fram að árleg sala Arla í Bandaríkjunum eru 16 þúsund tonn af ostum, en nærri lætur að til þess að framleiða slíkt magn af ostum þurfi um 160 milljónir lítra mjólkur. Þrátt fyrir að það mjólkurmagn sé meira en öll árlega landsframleiðslan hér á landi er Arla einungis með örlítið brot af Bandaríska osta-markaðinum, sem almennt er þekktastur fyrir gríðarlega notkun á cheddar osti og öðrum slíkum ostum sem notaðir eru á hamborgara, á pizzur og í hinar ýmsu sambærilegu tilbúnu matvörur.