Arla byggir stærstu mjólkurpökkunarstöð í heimi
21.08.2010
Stjórn framleiðenda-samvinnufélagsins Arla Foods, sem er í eigu danskra og sænskra kúabænda, hefur nú ákveðið að ráðast í risafjárfestingu í Bretlandi, en þar munu brátt hefjast framkvæmdir við fullkomnustu og um leið umhverfisvænustu mjólkurpökkunarstöð í heimi. Afurðastöðin verður byggð í útjaðri London og mun taka árlega á móti 1 milljarði lítra mjólkur, en það magn nægir til þess að sjá hinum 11 milljón íbúum London fyrir drykkjarmjólk. Áætlaður kostnaður við byggingu verksmiðjunnar eru 1,4 milljarðar danskra króna eða um 29 milljarðar íslenskra króna. Samhliða þessari framkvæmd eru breskir kúabændur, sem leggja mjólk inn hjá Arla, að skoða mögulega
fjárhagslega aðkomu að fyrirtækinu.
Eins og áður segir mun afurðastöðin verða sú fullkomnasta sem byggð hefur verið í heiminum og mun gefa möguleika á mikilli sókn inn á drykkjarvörumarkaðinn í Bretlandi. Ætlað er að starfsemi geti hafist árið 2012 en ráðgert er að um 500 manns mun starfa við afurðastöðina við bæði framleiðslu, sölu, dreifingu og stjórnun.