
Arla: bullandi tap í Þýskalandi!
11.04.2018
Þýski armur afurðarisans Arla hefur átt afar erfitt uppdráttar undanfarið, en í fréttatilkynningu frá Arla kemur fram að árið 2016 hafi starfsemin í Þýskalandi verið rekin með miklu tapi eða sem nemur 21 milljarði íslenskra króna! Þá sé uppsafnað tap félagsins frá árinu 2012, af rekstrinum í Þýskalandi, 59 milljarðar íslenskra króna. Ennfremur kemur fram í tilkynningunni að þrátt fyrir að það hafi gengið betur í fyrra en undanfarin ár þá hafi áfram verið tap af starfseminni í Þýskalandi. Aðal skýringin á tapinu má rekja til mikillar samkeppni í framleiðslu á mjólkurvörum merktum öðrum þ.e. framleiðslu á vörum fyrir ákveðnar verslunarkeðjur.
Nú hefur stjórn félagsins ákveðið að við þetta verði ekki búið lengur og hafa verið boðaðar umfangsmiklar aðgerðir til þess að bæta afkomuna. Verður það bæði gert með sölu eða lokun ákveðinna vinnslustöðva Arla í Þýskalandi, en einnig verður farið í sparnaðaraðgerðir til þess að draga úr almennum rekstrarkostnaði í bæði Þýskalandi en einnig í öðrum löndum þar sem félagið er með rekstur. Þá hefur yfirmaður Arla í Þýskalandi verið settur af og fær nú nýr aðili tækifæri til þess að takast á við reksturinn þar/SS.