Beint í efni

Argentínskir bændur í 3 vikna verkfalli

16.04.2008

Um síðustu mánaðamót var víða orðið tómlegt um að litast í kjörbúðum á nokkrum svæðum í Argentínu, en þá hafði verkfall bænda staðið í 3 vikur. Verkfallið hófst í fyrrihluta marsmánaðar, þegar stjórnvöld í Buenos Aires lögðu frekari útflutningstolla á ýmsar landbúnaðarafurðir, s.s. hveiti, nautakjöt og sojabaunir. Sem dæmi má nefna að útflutningstollar á sojabaunir voru auknir úr 35% í 45%, til að auka tekjur ríkisins á tímum hækkandi matvælaverðs í heiminum. Einnig er markmið þessara aðgerða að koma í veg fyrir að matvæli flytjist úr landi, þar sem verð á heimsmarkaði er mun hærra en á heimamarkaði. 

Þessar aðgerðir vöktu mikla reiði bænda, sem settu upp vegatálma og neituðu að fara með nautgripi á markað og uppskeru til afurðastöðva. Mercado de Liniers, sem er aðal markaður landsins fyrir nautgripi, þar sem á góðum degi ganga kaupum og sölum 10-12 þúsund gripir, var tómur svo dögum skipti og sláturhús náðu ekki í neina gripi til slátrunar til útflutnings.

 

Útflutningur á korni hefur orðið fyrir svipuðum skakkaföllum, þá hafa smásalar landsins fundið fyrir aðgerðunum, þar sem verslanir tæmdust af nautakjöti, kjúklingi, mjólk, pasta og matarolíum.

 

30 daga hlé var gert á aðgerðunum þann 3. apríl sl. meðan bændur eiga viðræður við stjórnvöld um úrlausn málsins. Náist hún ekki, má búast við framhaldi á þeim um næstu mánaðamót.

 

Heimildir: Farmers Weekly og Los Angeles Times