Fyrir ári síðan sat ég við sama verk, að rita áramótapistil um viðburði starfsársins sem var að líða og stöðu nautgriparæktarinnar. Þá vorum við þegar farin að finna fyrir áhrifum af hökti í aðfangakeðjum heimsins í kjölfar heimsfaraldurs og sáum fram á talsverðar áskoranir í íslenskum landbúnaði fyrir árið 2022. Þá vonaðist ég til að sem allra fyrst myndi rakna úr ástandinu og taldi aðkomu stjórnvalda mikilvæga svo að bændur landsins mættu standa af sér storminn. Þá vissum við ekki að það ætti bara eftir að bæta í storminn. Stríð braust út í Evrópu og skaflinn sem þeim stormi fylgdi varð enn stærri.
Árið 2022 var árið sem fæðuöryggi var á allra vörum og íslenskum landbúnaði var gefinn aukinn gaumur. Ríkið brást við ástandinu sem gífurlegum aðfangahækkunum fylgdi og kom með viðbótarstuðning til landbúnaðarins en sé horft til næsta árs er ljóst að áskoranirnar verða ekki endilega minni.
Þrátt fyrir stórkostlegar áskoranir á árinu 2022 einkennist árið jafnframt af baráttuvilja bænda og frábærum árangri á ýmsum sviðum. Hvort sem er litið til mjólkur- eða nautakjötsframleiðslu náðu íslenskir bændur miklum árangri, við sáum stórt verkefni í kynbótastarfi verða að veruleika, stefnumótunarmarkmið í nautakjötsframleiðslu náðust mun fyrr en áætlað var og íslenskar mjólkurvörur hlutu verðskuldaða athygli.
Sjáumst
Árið sem nú er senn á enda var einnig árið sem við fórum í auknum mæli að geta sagt ,,sjáumst“ í stað ,,skjáumst“. Staðarfundir urðu fleiri á árinu og það var virkilega ánægjulegt að fara með í hringferð Bændasamtakanna um landið til að sjá og heyra í bændum vítt og breytt um landið. Samtalið við grasrótina er okkur sem störfum við hagsmunabaráttu landbúnaðarins nauðsynlegt.
Fyrsta Búgreinaþingið var haldið snemma árs á Hótel Natura og var það kærkomin tilbreyting frá aðalfundum á Zoom. Þar fengum við mikið og gott nesti inn í starfsárið eða 42 ályktanir en lang mest vinna fór í þau mál er snéru að sameiningu LK við BÍ og þar með samþykktir búgreinadeildar Nautgripabænda BÍ (NautBÍ).
Íslenskur landbúnaður, fæðuöryggi og mikilvægi matvælaframleiðslu hafa sjaldan ef aldrei fengið jafn mikla athygli og í ár mátti sjá og heyra talsfólk landbúnaðarins reglulega í fréttum og blöðum vegna þessa. Tugþúsundir sóttu vel heppnaða Landbúnaðarsýningu í Laugardalshöll í haust sem sýnir að almennur áhugi á landbúnaði er sannarlega til staðar en samhliða sýningunni stóðu Bændasamtökin fyrir málþinginu, Dagur landbúnaðarins, sem var bæði áhugavert og mjög vel sótt.
Mjólkurframleiðslan
Fyrri hluta ársins dróst mjólkurframleiðsla verulega saman í samanburði við framleiðslu ársins 2021 og náði mismunurinn mest rúmum 2 milljónum lítra. Sala á mjólkurvörum var góð á árinu og bændur fengu skýr skilaboð með hækkunum á verði umframmjólkur. Þrátt fyrir gríðarlega krefjandi starfsumhverfi brugðust kúabændur hratt við, gáfu í og viðsnúningur varð seinni hluta ársins á mjólkurframleiðslunni. Heildargreiðslumarki ársins, 146,5 milljónir lítra, verður því náð og líklegt að heildar innvigtun ársins verði um 148 milljónir lítra.
Vegna aukinnar sölu og krefjandi aðstæðna í mjólkurframleiðslu var brugðið á það ráð að gefa út greiðslumark ársins 2023 fyrr en vant er. Um var að ræða talsverða hækkun þar sem greiðslumark næsta árs verður 149 milljónir lítra og því mikilvægt að gefa bændum sem fyrst skilaboð og svigrúm til að bregðast við aukinni þörf.
Lágmarksverð mjólkur var hækkað þrisvar sinnum á árinu og ný verðlagsnefnd tók til starfa í september. Þau tíðindi urðu í nýrri verðlagsnefnd að ákvörðun var tekin um að hefja vinnu að uppfærðum verðlagsgrunni enda allir hagaðilar sammála um að núverandi grunnur sé löngu úreltur.
Á árinu kom út 10. skýrslan um fjósgerðir á Íslandi sem Snorri Sigurðsson tók saman. Velferð mjólkurkúa hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og er það nú svo að 80,1% af mjólkurframleiðslu landsins kemur frá kúm í lausagöngufjósum auk þess að mjaltaþjónar eru algengasta mjaltatæknin í íslenskum fjósum í dag. Verður þetta að teljast frábær árangur.
Osturinn Feykir 24+ vakti mikla athygli í Heimsmeistarakeppni osta sem fram fór í Wisconsin í Bandaríkjunum á árinu, enda í fyrsta sinn sem íslenskur ostur er meðal keppenda um heimsmeistaratitilinn. Osturinn hafnaði í 8. sæti í sínum flokki og hlýtur að teljast stórkostlegur árangur fyrir íslenska ostagerð að ná svo langt á sínu fyrsta þátttökuári.
Keppnin, sem um ræðir, er stærsta keppni sinnar tegundar í heiminum og er hún haldin ár hvert. Að þessu sinni voru sendir inn 2.978 ostar frá 29 löndum og 33 fylkjum innan Bandaríkjanna svo árangur Feykis 24+ er stórmerkilegur.
Jökla, fyrsti íslenski rjómalíkjörinn, var einnig tilnefndur til norrænu matvælaverðlaunanna, Embla og Ísey skyr Créme brûlée hlaut sérstök heiðursverðlaun á matvælasýningunni International Food Contest í Herning í Danmörku. Sömuleiðis hlaut Ísey skyr í Hollandi verðlaun síðastliðið vor fyrir bestu vörunýjung ársins 2021 fyrir Ísey skyr með sítrónuostaköku.
Nautakjötsframleiðslan
Á fyrri hluta árs kom út skýrsla RML um afkomu nautakjötsframleiðslunnar. Þar sáum við svart á hvítu það sem við nautgripabændur höfum lengi bent á. Það er að afkoma nautakjötsframleiðslunnar er ekki nægjanlega góð, bændur hafa jafnt og þétt verið að ganga á eigin launalið og svigrúmið til að takast á við stórfenglegar aðfangahækkanir er lítið sem ekkert. Það liggur því í augum uppi að eitthvað þarf að koma til, hvort sem er horft til afurðaverðs, aðkomu ríkis eða tollverndar en við höfum marg oft bent á hvernig lækkuð tollvernd hefur ekki skilað sér í lægra vöruverði til neytenda, einungis lægra afurðaverði til bænda, þvert á yfirlýsingar sumra um að lækkun tolla skili sér í lægra vöruverði til neytenda.
Með hækkandi sól sáum við þó nokkrar hækkanir á afurðaverði nautakjöts sem var afskaplega jákvætt en betur má ef duga skal. Ef við berum saman vísitölu neysluverðs til nautgripabænda (VATN) og vísitölu neysluverðs sjáum við að VATN hefur einungis hækkað um rúm 6% frá janúarbyrjun 2018 á sama tíma og vísitala neysluverðs hefur hækkað um rúm 25%.
Verð á matvælum, þar með talið nautakjöti hefur rokið upp erlendis, eftirspurn eftir íslensku nautakjöti hefur sjaldan verið meiri og biðlistar í slátrun eru nánast horfnir. Þær hækkanir sem við höfum fengið á árinu eru því einungis leiðréttingar á afurðaverði, sem styrkja vissulega rekstrargrundvöll nautakjötsframleiðslunnar, en við þurfum að bregðast hratt við ef við viljum halda í þekkinguna og valið um aðgang að íslensku gæðanautakjöti sem ber talsvert lægra kolefnisspor en innflutt.
Það skýtur nokkuð skökku við að á sama tíma og greinin stendur í jafn ströngu og raun ber vitni hefur árangurinn sjaldan verið jafn mikill. Í nautakjötsframleiðslunni höfum við séð bæði metnað og þekkingu aukast með aukinni sérhæfingu. Fyrstu gripirnir af nýju erfðaefni Angus komu á markað á árinu og allt lítur út fyrir að íslenskir nautakjötsframleiðendur hafi náð stefnumótunarmarkmiðum LK frá 2018, um að hlutfall UN gripa sem flokkast í R flokk og yfir verði 15%, hafi náðst sex árum fyrr en áætlanir stóðu til um.
Innleiðing erfðamengisúrvals og næstu verkefni
Einn af merkilegustu viðburðum ársins hjá nautgripabændum var án efa innleiðing erfðamengisúrvals, en í októberlok var í fyrsta skipti kynbótamat byggt á erfðamengi (DNA sýnum) notað til að velja naut til undaneldis. Verkefnið um erfðamengisúrval þótti jafnvel óhugsandi fyrir um áratug og er að öllum líkindum eitt stærsta framfaraskref sem tekið hefur verið í íslenskri nautgriparækt. Með erfðamengisúrvali sjáum við fram á hraðari og meiri framfarir í kynbótastarfi með tilheyrandi aukinni framleiðni á kúabúum auk minni sóunar og má því að segja að verkefnið sé ein stærsta loftslagsaðgerð íslenskrar mjólkurframleiðslu.
Í kjölfar innleiðingar erfðamengisúrvals liggur beinast við að horfa til næsta stóra verkefnis búgreinarinnar, sem er að mínu mati innleiðing á kyngreindu sæði. Skýrsla RML um mögulegar leiðir okkar til að innleiða kyngreiningu á sæði er væntanleg í upphafi árs og á síðasta stjórnarfundi NautBÍ var samþykkt að komið yrði á starfshóp hagaðila sem myndi vinna að verkefninu. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum gætum við verið nær þeim möguleika að koma verkefninu á hérlendis en við höfðum gert ráð fyrir.
Jöfnun sæðingarkostnaðar í landinu hefur verið tíðrædd í gegnum tíðina og var ályktað á búgreinaþingi í vor að jafna skildi sæðingarkostnað á landinu innan þriggja ára. Á haustmánuðum var því fundað með öllum búnaðarsamböndum og ákveðið að þrjú félög, Búnaðarsamband Suðurlands, Búnaðarsamband Eyjafjarðar og Búnaðarsamband Vesturlands myndu vinni að frekari útfærslu aðgerðarinnar. Sú vinna stendur enn yfir en vonumst við til þess að félögin hraði vinnunni sem allra mest.
Merkingarmál nautgripa voru fyrirferðamikil á árinu enda mikið undir hjá bændum þegar gripum er fargað vegna ófullnægjandi merkinga. Nýjustu fregnir af þessum málum má lesa um á heimasíðu deildarinnar en þær snúa að úrskurði Matvælaráðuneytisins í máli er varðar stjórnsýslukæru vegna höfnunar MAST á undanþágubeiðni vegna eyrnamerkinga nautgrips.
Horft fram á veginn
Í haust sendum við út skoðanakönnun meðal nautgripabænda og tókum þannig púlsinn á greininni. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á þriðja haustfundi okkar nýverið en einnig munum við fjalla um þær í greinaskrifum upp úr áramótum. Heilt yfir má þó lesa úr niðurstöðunum að nautgripabændur reyna að vera bjartsýnir á framtíðina og hafa hug á að fara í frekari framkvæmdir og hagræðingu í rekstri sínum.
Þetta eru vissulega jákvæð skilaboð en til að að þessu verði, verðum við að huga vel að búgreininni og tryggja áframhaldandi framfarir svo að bændur hafi svigrúm í sínu rekstrarumhverfi til að bregðast við aukinni eftirspurn.
Frá aldamótum hafa íslenskir kúabændur brugðist við aukinni eftirspurn mjólkur með ótrúlegum framförum í afköstum og framleitt mjólk upp í greiðslumark sem er tugum milljóna meira. Á sama tíma hefur heildar ríkisstuðningur við nautgriparæktina lækkað um þrjá milljarða. Auk þess að framleiða meira hafa á þessum tíma kröfur um velferð og aðbúnað aukist sem og kröfur vegna loftlagsmála.
Til þess að vel megi verða hljótum við að horfa til þess að tryggja þurfi umhverfi bænda hvort sem er í stuðningi, tollaumhverfi, regluverki eða verðlagskerfi.
Sama má segja um nautakjötsframleiðsluna sem þróast hratt í sérhæfða búgrein og tækifæri eru fólgin í eftirspurn og aðgengi að landi.
Hvet ég þau sem koma til með að sitja í samninganefnd um endurskoðun búvörusamninga til þess að hlusta á bændur og forsvarsfólk þeirra. Mikilvægt er að fara með opnum hug inn í endurskoðunina og muna að endurskoðun var upphaflega hugsuð til að sníða agnúa af samningnum en ekki kollvarpa þeim. Mikilvægt er þó að skýra ýmis atriði samningsins og gera hann skiljanlegri.
Að lokum
Ég var kjörin í stjórn LK fyrir að verða 6 árum síðan, var kjörin formaður LK árið 2020 og síðar sem formaður búgreinadeildar nautgripabænda í BÍ. Ég hef haft mikla ánægju af því mikilvæga starfi sem nautgripabændur hafa treyst mér fyrir síðustu ár og hefur þessi tími verið mér einstaklega lærdómsríkur. Á síðasta stjórnarfundi búgreinadeildar NautBÍ tilkynnti ég ákvörðun mína um að gefa ekki kost á mér til áframhaldandi formannssetu á næsta Búgreinaþingi. Fyrir um ári síðan hafði ég sett mér það markmið að starfa sem formaður búgreinadeildarinnar í eitt ár í viðbót og klára að fylgja eftir sameiningu LK við Bændasamtökin ásamt því að sinna öðrum mikilvægum málum greinarinnar. Hefur sameiningin gengið vel að mínu mati, fleiri hendur eru komnar á dekk í hagsmunagæslu búgreinarinnar og hef ég orðið vitni af mögnuðum samtakamætti bænda á árinu. Sömuleiðis hefur fjölda verkefna verið ýtt úr vör síðustu ár, erfðamengisúrvalið ber þar hæst en við erum strax farin að undirbúa okkur fyrir næstu verkefni ásamt næstu endurskoðun búvörusamninga. Á árinu var ég kjörin í stjórn Bændasamtakanna og er ég sannfærð um mikilvægi þess að stjórnarfólk búgreinadeilda sitji í stjórn BÍ. Ég mun halda áfram að berjast fyrir hagsmunum bænda á næsta starfsári í stöðu minni sem varaformaður Bændasamtakanna en ætla að láta öðrum eftir að sinna forystu nautgripabænda.
Það verður því verkefni næsta formanns og stjórnar að fylgja eftir áherslum búgreinarinnar í næstu endurskoðun og óska ég þeim velfarnaðar á komandi ári. Kúabændur eru virkir í sínu félagsstarfi sem hefur reynst okkur dýrmætt og ég veit að við fáum öfluga manneskju í forystu fyrir greinina.
Þegar litið er yfir viðburðaríkt starfsár stendur upp úr að bændur hafa á árinu sýnt og sannað að þrátt fyrir að skaflinn sé hár sé hann einungis til þess gerður að koma sér í gegnum hann. Árið einkenndist í senn bæði af miklum áskorunum, framförum og árangri og nautgripabændur mega klappa sjálfum sér á bakið fyrir gott ársverk.
Að lokum vil ég þakka bændum, stjórnarfólki, starfsfólki Bændasamtaka Íslands og öðru samstarfsfólki kærlega fyrir samstarfið á árinu.
Með ósk um gleðilegt og uppskeruríkt ár á öllum sviðum!
Herdís Magna Gunnarsdóttir,
Ritað á Egilsstöðum 28. desember 2022.