Beint í efni

Angus naut selt á 79 milljónir!

12.04.2018

Angus nautið Elation, sem er 14 mánaða gamall tarfur sem heitir fullu nafni SAV Elation 7899, var seldur á uppboði í febrúar. Það væri vart í frásögur færandi ef hann hefði ekki verið seldur fyrir hæstu upphæð sem fengist hefur fyrir Angus naut í heiminum en hann fór á hvorki meira né minna en 800 þúsund dollara sem svarar til um 79 milljóna íslenskra króna! Fyrra metið var sett í fyrra, er naut fór á 750 þúsund dollara.

Elation þessi kemur frá kúabúinu Schaff Angus Valley í Norður Dakóta í Bandaríkjunum en það bú er eitt það þekktasta í heiminum  fyrir afburða Angus ræktun og hægt er að lesa frekar um þetta bú á heimasíðu þess með því að smella hér. Elation var seldur til ræktunarbúa í Oklahóma og Missouri og eru hinir nýju eigendur sannfærðir um að kaupin muni borga sig enda er Elation afar öflugt naut og einkar vel ættað og er hann m.a. sonarsonur EXT (N Bar Emulation EXT), eins frægasta Angus nauts heims síðustu tvo áratugi eða svo.

Samkvæmt kynbótaspá fyrir Elation ætti hann að gefa af sér netta kálfa með öfluga vaxtargetu og góða vöðvafyllingu. Þá eru kýrnar í hinni svokölluðu EXT fjölskyldu þekktar fyrir afar góða júgurgerð, sterkar fætur og mikla endingu/SS