Ályktun um verðlagsmál frá Félagsráði FKS
02.10.2008
Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi Félagsráðs FKS þann 30. september sl.:
Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi lýsir þungum áhyggjum yfir afkomu mjólkurframleiðslunnar og telur brýnt að verð til framleiðenda verði leiðrétt hið fyrsta.
Greinargerð:
Mjólkurverð til framleiðenda var hækkað 1. apríl s.l., en síðan þá hefur verið mikill óstöðugleiki í rekstrarumhverfi kúabænda og verðhækkanir á aðföngum tíðar. Sem dæmi má nefna að stórir kostnaðarliðir á borð við kjarnfóður og diselolíu hafa hækkað yfir 30%. Eins hefur fjármagnskostnaður aukist gríðarlega, enda hefur gengi krónunnar lækkað meira en áður hefur þekkst og verðbólga mikil. Í ljósi þessa leggur félagsráð þunga áherslu á að mjólkurverð til framleiðenda verði leiðrétt hið allra fyrsta, að öðrum kosti er hætt við að fjöldi búa komist í þrot innan skamms.