Beint í efni

Ályktun stjórnar LK vegna breytinga á reglugerð um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki

06.07.2010

Vegna breytinga á reglugerð um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki sem gefnar voru út í gær, hefur stjórn Landssambands kúabænda samþykkt svofellda ályktun:

 

Ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála hefur gefið út breytingu á reglugerð nr. 430/2010 um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum. Frá setningu reglugerðarinnar þann 17. maí sl. hefur gætt verulegrar óánægju meðal kúabænda, vegna þess að með henni voru viðskipti með greiðslumark stöðvuð út yfirstandandi verðlagsár, sem lýkur 31. desember nk. Stöðvun viðskipta um svo langt skeið veldur nokkrum fjölda kúabænda verulegum búsifjum. Til þess að ráða bót á þessum annmörkum og öðrum sem á reglugerðinni voru, var settur á fót starfshópur með fulltrúum ráðuneytisins, LK, BÍ og MAST í nýliðnum júnímánuði. Þar var m.a. lagt upp með að fyrsti markaðsdagur kvótamarkaðarins yrði 15. september nk. og byggði aðkoma LK að starfshópnum alfarið á þeirri forsendu. Með þeim breytingum á reglugerðinni sem nú hafa verið gefnar út, er ljóst að ráðherra hefur ekki fallist á að fyrsti markaðsdagur verði 15. september 2010, þrátt fyrir að út frá því hafi verið gengið í vinnu starfshópsins. Stjórn Landssambands kúabænda  lýsir furðu sinni á framgangi ráðherra í þessu máli og fær ekki séð hvaða sjónarmið eða hagsmunir ráða ákvörðun hans. Með þessu er hætt við að góð hugmynd að stórbættu skipulagi á viðskiptum með greiðslumark bíði verulegan hnekki, auk þess sem ákvörðun ráðherra veldur kúabændum fjárhagslegum skaða. Lýsir stjórn Landssambands kúabænda allri ábyrgð vegna þessa á hendur ráðherra.

 

 

F.h. stjórnar Landssambands kúabænda