Beint í efni

Ályktanir Búgreinaþings Nautgripabænda BÍ (NautBÍ) 2022

10.03.2022

Alls voru 42 ályktanir voru samþykktar á Búgreinaþingi kúabænda BÍ, sem haldið var í Reykjavík fimmtudaginn, 3. mars og föstudaginn, 4. mars 2022. Meðal þeirra var samþykkt nýtt nafn á deildina sem ber nú nafnið Nautgripabændur BÍ, skammstafað NautBÍ. Einnig var samþykkt að jafna skyldi sæðingakostnað um land allt og að hámarksverð greiðslumarks skuli vera tvöfalt afurðastöðvaverð eftir næstu endurskoðun. Endurskoðun búvörusamninga var mikið rædd á þinginu sem og afkoma greinarinnar. Þá samþykkti fundurinn einnig nýjar samþykktir og þingsköp fyrir búgreinadeild Nautgripabænda BÍ sem birtast munu á síðunni á næstu dögum.

Fundargerð fundarins verður sett á vefinn fljótlega.

Hér má lesa allar þær tillögur sem samþykktar voru á fundinum:

 

Ályktanir Búgreinaþings Nautgripabænda BÍ, 3.-4. mars 2022.

 

  1. Samþykktir Nautgripabænda BÍ 

Samþykktirnar munu birtast á vefnum á næstu dögum.

 

  1. Þingsköp Búgreinaþings Nautgripabænda BÍ  

Þingsköp Búgreinaþings NautBÍ munu birtast á vefnum á næstu dögum.    

 

  1. Grasrótarstarf

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til stjórnar Bændasamtaka Íslands að tryggja búgreinadeild nautgripabænda fjármagn til að standa straum af kostnaði af félagsstarfi deildarinnar.

Greinagerð: Í gegnum tíðina hefur grasrótarstarf nautgripabænda verið öflugt. Það vekur nokkrar áhyggjur núna þegar grasrótarstarfið hefur verið skilið frá deildinni (kúabændafélögin um allt land gegna engu formlegu hlutverki í nýju skipulagi félagskerfisins) að það félagsstarf sem hefur verið í gangi kunni að glatast.

 

  1. Búnaðarþingsfulltrúar

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til Búnaðarþings að við 1. mgr. 14. gr. samþykkta Bændasamtaka Íslands bætist við eftirfarandi klausa: „Vægi fjölda félagsmanna í hverri búgrein skal vigtað út frá hlutfalli skráðrar veltu hvers félagsmanns í viðkomandi búgrein, þannig að hver félagsmaður getur einungis talist samtals einu sinni”.

GreinagerðÍ aðdraganda búgreinaþings 2022 varð ljóst að 14. gr. eins og hún stendur í dag skilgreinir ekki nægilega vel hvernig ber að telja félagsmenn. Miðað við núverandi orðalag má túlka greinina þannig að með því að skrá 1% veltu í fimm búgreinar og 95% veltunnar í þá sjöttu, þá gæti félagsmaður talist sem fullgildur félagi fyrir sex búgreinar. Eðlilegra er að félagsmaðurinn skiptist á milli búgreina, í réttu hlutfalli við skráningu sína. Til að mynda einn fullgildan félagsmann þyrfti t.d. tíu einstaklinga sem allir skrá 10% veltu í búgreinina. Núverandi fyrirkomulag býður upp á að hægt sé að smala saman skráningum í búgreinarnar sem er algjörlega andstætt anda og markmiðum við sameiningu Bændasamtakanna. Með þessari tillögu er þessu vafaatriði eytt.

  

  1. Birting félagatals

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til Búnaðarþings að leita leiða til þess að hægt sé að birta grunnupplýsingar úr félagatali.

Greinagerð: Í aðdraganda Búgreinaþings varð ljóst að ekki má birta grunnupplýsingar úr félagatali vegna persónuverndarlaga. Gerði það framkvæmd framboðs og kosninga fulltrúa til Búgreinaþings töluvert flóknari þar sem ekki var hægt að veita upplýsingar til þriðja aðila um það hverjir eru í Bændasamtökunum. Olli það því í einhverjum tilfellum að atkvæði nýttust ekki, þar sem einstaklingar utan Bændasamtakanna voru kosnir. Óskar deildin því eftir að leitað verði leiða til hægt verði að nálgast grunnupplýsingar úr félagatali við ákveðin skilyrði.

 

  1. Samfélagsmiðlar BÍ

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til BÍ að setja tilkynningar á heimasíðu og Facebook síðu búgreinadeilda þegar mál sem varðar búgreinarnar birtast á samráðsgátt Alþingis.

 

  1. Jöfnun sæðingarkostnaðar

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til stjórnar búgreinadeildar kúabænda og Bændasamtaka Íslands að vinna að því að sæðingar kostnaður í nautgriparækt verði jafn um allt land.

Lagt er til að búnaðarsamböndin sem sjá um kúasæðingar í dag stofni í sameiningu félag/fyrirtæki til að sjá um sæðingar á landinu öllu. Stjórn þessa félags yrði skipuð fulltrúum frá hlutaðeigandi búnaðarsamböndum. Stefnt verði að einni gjaldskrá fyrir landið allt og kostnaður við sæðingar jafnaður til fulls sem fyrst og ekki síðar en innan 3 ára frá stofnun félagsins.

  

  1. Skráningarkerfi sæðinga

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, leggur til að Fagráð nautgriparæktar vinni að því klára þá vinnu sem samþykkt var á fundi Fagráðsins þann 14. október 2019 um að taka upp rafrænt pöntunar og skráningarkerfi á sæðingum. Lagt er til að gengið verið til samninga við Viking í Danmörku að yfirfæra þeirra rafrænu skráningu yfir á íslensku og tengja það við Huppu.

Greinargerð: Í nálægum löndum er meirihluti sæðingar pantaður með rafrænum hætti sem dregur mjög úr villuhættu við pantanir og skráningar sæðinga. Þá bíður forrit sem nýtt eru til þessara verka hjá Viking í Danmörku upp á margvíslega þætti sem auka skilvirkni sæðingar starfseminnar verulega. Fyrir liggur að endurskrifa þurfi skýrsluhaldsforritið Huppu og liggur því beinast við að innleiða framangreint kerfi samhliða þeirri vinnu. Mikilvægt er að allir hagaðilar komi að verkefninu.

 

  1. Skráning í Huppu

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til Fagráðs að vinna að einföldun á lista sem notaður er þegar skrá skal í Huppu förgunarástæður á nautgripum. Listinn þarf að endurspegla ræktunarmarkmið og vera einfaldur í notkun. Einnig að skoðað verði að breyta skráningunni þannig að hægt verði að skrá 1-3 förgunarástæður.

 

  1. Skráningar á spena- og júgurgöllum í Huppu

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til RML að taka upp skráningarmöguleika á spena- og júgurgöllum hjá fyrsta kálfs kvígum í mjaltaathugun í skýrsluhaldsforritinu huppa.is

 

  1. Kvíguskoðanir

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022 beinir því til stjórnar búgreinadeild kúabænda að beita sér fyrir aukinnar tíðni kvíguskoðana og tryggja til þess fjármagn. 

Greinargerð: Í dag eru mörg tilfelli um að kvígur eru skoðaðar seint á fyrsta mjaltaskeiði eða á öðru mjaltaskeiði sem er fullkomlega óásættanlegt.

  

  1. Nautakjötsframleiðsla

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir eftirfarandi til markaðssviðs BÍ:  

  1. Að efla samstöðu kjötframleiðenda um heildstæða markaðssetningu á íslensku kjöti og fylgjast með neyslu innanlands.
  2. Að kortleggja innflutning og meta þau mörk sem innlend framleiðsla þolir.
  3. Að fylgjast með hvort íslenskar afurðastöðvar nýti útflutningskvóta á kjöti til fulls.

Leiðir:

  1. Skipulagðar verði í samráði við allar greinar árstíðabundnar kjöthátíðir, annað hvort fyrir hverja grein sbr. súpudagana á haustin eða sameiginlegar með öllum greinum. Gögnum verði safnað um hlutdeild íslensks kjöts í verslunum, veitingahúsum, skyndibitastöðum, matvælafyrirtækjum og hjá opinberum stofnunum s.s. skólum og sjúkrahúsum.
  2. Fylgst verði með innflutningi á kjöti, tegundum og tímabilum og skoðað í samhengi við neyslumynstur eftir árstíðum, viðburðum, ferðamannafjölda o.þ.h.
  3. Aflað verði gagna um útflutning á kjöti, hve mikið selt, hvaða tegundir og á hvaða markaði. Einnig liggi fyrir upplýsingar um verð.

Greinargerð: Kjötframleiðendur á Íslandi eru í eðlilegri samkeppni innbyrðis en geta með samstöðu, þekkingarmiðlun og samlegðar áhrifum staðið vörð um atvinnugreinina í heild. Íslenska búvörumerkið mun auðvelda neytendum að finna innlent kjöt í verslunum en fyrir utan merktar vörur er ógerningur að vita hvaða kjöt er í tilbúnum matvælum t.d. á skyndibitastöðum, veitingahúsum o.s.frv. Innflutning og sölu er hægt að finna á mælaborði landbúnaðarins. Mögulega væri hægt að hagræða innlendri framleiðslu á tímalínu til að mæta samkeppni erlendis frá. Gögn um útflutning gætu gagnast við skipulagningu í búrekstri og markaðsstarfi kjötgreina.

 

  1. Álagsgreiðslur nautakjöts

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til afurðastöðva að borga álaggreiðslur á þeim tímum sem minna er framleitt af nautakjöti til þess að draga út toppum við slátrun og tryggja nægt framboð á markaði.

Greinargerð: Fundurinn hvetur afurðarstöðvar til að upplýsa framleiðendur betur um hvernig gripi þeir óska eftir til slátrunar.

 

  1. Hækkað afurðaverð

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, hvetur BÍ til að beita sér af hörku fyrir sem bestu afurðaverði fyrir kúabændur í samningum við ríki og afurðastöðvar. Þær hækkanir sem nást tryggi rekstrargrundvöll greinarinnar.

Greinargerð: með hækkandi verði á aðföngum s.s. áburði, fræi og olíu mun afkoma kúabænda halda áfram að versna eins og fram kemur í skýrslu RML um Rekstur og afkomu Kúabúa 2017 til 2020.

 

  1. Verð á nautakjöti

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, skorar á Haga, Festi, Samkaup og aðra eigendur matvöruverslana að minnka arðsemiskröfu sína með lækkun álagningar á innlendu nauta- og nautgripakjöt. Áskorunin er gerð í ljósi þess að óhjákvæmilega eru verulegar hækkanir afurðaverðs fram undan vegna gríðarlegra hækkana á aðföngum við framleiðsluna. 

Greinargerð: Raunverð til bænda fyrir gæðanaut hefur frá lokum ársins 2017 lækkað um 17,5% og kýr af betri gæðum á sama tíma um 23,9%. Íslenskir neytendur hafa sýnt að þeir velja innlendar landbúnaðarvörur og bændur vilja standa undir því trausti sem í því felst. Staðan er hins vegar þannig að greinin stendur ekki undir þeim aðfangahækkunum sem hafa orðið né staðið undir neinum launahækkunum á sl. 5 árum. Því biðlum við nú til verslunarinnar þannig að nauðsynlegar hækkanir á afurðaverði skelli ekki að fullum þunga á neytendum.

 

  1. Aðild kúabænda að landbúnaðarklasanum

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, skorar á BÍ sem eiga fulltrúa í stjórn að óska eftir eftirfarandi:

  1. Ársskýrslum landbúnaðarklasans fyrir árin 2020 og 2021.
  2. Markmiðssettum framkvæmdaáætlunum fram að endurskoðun búvörulaga 2023 með hliðsjón af 2. grein samþykkta klasans: "Markmið samtakanna er að stuðla að framþróun á starfssviði þeirra, gæta sameiginlegra hagsmuna og kynna þá fjölþættu starfsemi sem tengist landbúnaði".

 

  1. Fjármögnun landbúnaðarins

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til búnaðarþings að sett verði í gang vinna með stjórnvöldum um lækkun fjármagnskostnaðar við framleiðslu búvara á Íslandi. Í þeirri vinnu skal lögð sérstök áhersla á að auka möguleika Byggðastofnunar til að veita búvöruframleiðendum á landsbyggðinni betri fjármögnunarkosti en nú eru í boði. Núverandi vaxtakjör þurfa að lækka að lágmarki um 50% þannig að fjármagnskostnaður við jarðakaup, nýliðun, nýbyggingar eða til endurbóta á húsakosti lækki, sem síðan gerir framleiðsluna samkeppnishæfari og ódýrari fyrir neytendur.

Greinargerð: Möguleikar til framleiðslu matvæla í kjöti, mjólk og grænmeti eru miklir á Íslandi og mikilvægt er að nýta þá til hins ýtrasta. Þannig tryggjum við fæðuöryggi þjóðarinnar á afurðum sem eru í flokki þeirra bestu í heiminum. Á Íslandi er stofnkostnaður við nýbyggingar hár sem orsakast m.a. af miklum kröfum sem gerðar eru vegna veðurs og aðbúnaðar fyrir bæði menn og dýr. Góð vinnuaðstaða með nútíma vélvæðingu og kröfum um lágmarks stærðir fyrir hvern einstakling kosta meiri peninga en sambærileg aðstaða kostar í löndunum í kringum okkur. Af þessu leiðir að fjármagnskostnaður stórra framkvæmda verður mikill og langtum hærri en í þeim löndum sem við miðum okkur við. Þessi kostnaður fer með einum eða öðrum hætti út í verðlagið á því sem framleitt er og því er það bæði hagur þess sem framleiðir og neytenda að hann verði lækkaður. Í Byggðastofnun er kominn sérstakur lánaflokkur sem ætlaður er til jarðakaupa og kynslóðaskipta í landbúnaði í því skyni að styðja við nýliðun, nýsköpun og framþróun í greininni. Jafnframt eru veitt lán til nýbygginga og/eða endurbóta á húsakosti. Vextir á þessum lánaflokki eru í dag 4,5% plús verðbætur. Þessi kjör þurfa að lækka um allavega 50% svo samkeppnisstaða búvöruframleiðslu á Íslandi sé ásættanleg með hliðsjón af fjármagnskostnaði. Íslenska ríkið á og rekur Byggðastofnun og því teljum við hagkvæmast að koma þar inn með aukið fjármagn til rekstursins og þá á móti að lækka útlánsvexti til landbúnaðarframleiðslunnar á Íslandi.

  

  1. Áburðarverksmiðja

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til Stjórnar Bí að hefja samtal við Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Matvælaráðuneytið um að kanna hagkvæmni og kosti við köfnunarefnisframleiðslu á Íslandi.

 

  1. Niðurstöður Framkvæmdanefndar búvörusamninga

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því Framkvæmdarnefndar búvörusamninga að birta fundargerðir  nefndarinnar eins fljótt og verða má og með skýrum hætti.

 

  1. Búnaðarstofa

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, ítrekar mikilvægi þess að Búnaðarstofa verði sjálfstæð eining og beinir því til stjórnar Bændasamtaka Íslands og Matvælaráðuneytisins (MAR) að endurskoða núverandi fyrirkomulag.

Greinagerð: Á aðalfundi Landssambands kúabænda (LK), haldinn í Reykjavík 22.-23. mars 2019, var lögð þung áhersla á sjálfstæði Búnaðarstofu við tilfærslu stofnunarinnar frá Matvælastofnun til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins (ANR). Áramótin 2019/2020 sameinaðist Búnaðarstofa ANR en ekki sem sjálfstæð eining. Á aðalfundi LK, haldinn í fjarfundabúnaði 9. apríl 2021, var tekið heilshugar undir bókun stjórnar Bændasamtaka Íslands þann 18. febrúar 2021 um að eftirfarandi mál ættu ekki að liggja hjá stofnun sem væri undir yfirstjórn annars samningsaðila búvörusamninga, heldur hjá sjálfstæðri stofnun er lúti sérstakri stjórn, þó hún heyri stjórnarfarslega undir landbúnaðarráðherra:

  1. Framkvæmd búvörusamninga.
  2. Hagtölusöfnun í landbúnaði.
  3. Eftirlit með markmiðum búvörusamninga.

Stjórn BÍ samþykkti samhljóða að óska eftir áliti umboðsmanns Alþingis á stjórnsýslulegu fyrirkomulagi við framkvæmd búvörusamninga innan atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneytisins. Búnaðarstofa var áður sjálfstæð eining vistuð hjá Bændasamtökum Íslands og síðar hjá Matvælastofnun. Þar var safnað upplýsingum um búfjárhald, beingreiðslur fyrir framleiðslu greiddar út o.fl. Með flutningi búnaðarstofu inní ráðuneytið eru möguleikar bænda til að skjóta ágreiningsmálum um ráðstöfun fjármuna og önnur atriði á grundvelli búvörusamninga til æðra stjórnvalds úr sögunni. Þar með er eini möguleiki bænda, telji þeir á sér brotið, að leita beint til dómstóla. Auk þess er umsýsla komin beint undir annan samningsaðila búvörusamninga.

 

  1. Merkingar nautgripa – MAST

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til MAST að beita meðalhófsreglu varðandi merkingar á nautgripum.

 

  1. Tilkynningar MAST

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til MAST að senda beint til bænda og BÍ upplýsingar um breytingar á áherslum, en ekki bara til afurðastöðva.

 

  1. Kyngreining á sæði

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til stjórnar búgreinadeildarinnar að athuga hvert hagræðið yrði af kyngreiningu á sæði og leita leiða til að framkvæma og fjármagna verkefnið.

Greinargerð: Kyngreint sæði hefur löngum verið til umræðu í íslenskri nautgriparækt en hefur enn sem komið er ekki verið í boði fyrir íslenska nautgripabændur. Með tilkomu erfðamengisúrvalsins hefur áhugi á kyngreindu sæði aukist enn frekar og ljóst er að enn meiri hagræðing gæti átt sér stað með tilkomu þess. Danskir bændur hafa stuðst við kyngreiningu á sæði um árabil og er talið að um 15% allra búa landsins notist nú við kyngreiningu sæðis. Á fagþingi nautgriparæktarinnar í Danmörku árið 2019 var m.a. nefnt að með stöðugt vaxandi kröfu um lægra umhverfisspor mjólkur- og nautakjötsframleiðslunnar gæti notkun kyngreinds sæðis á betri kýr og kvígur verið áhugaverður kostur, ásamt því að bæta rekstur kúabúa heilt yfir. Þannig geta bændur valið að fá kvígu til mjólkurframleiðslu frá bestu kúnum og sætt aðrar kýr- sem ekki þarf að nota til áframhaldandi ræktunar- með holdanautasæði sem einnig er kyngreint og gefur þá nautkálfsblendinga sem eru hentugri til kjötframleiðslu, eru hagkvæmari og hafa þannig mun minni áhrif á umhverfið en nautkálfar af mjólkurkúakyni. Óskar búgreinadeild kúabænda eftir því að gerð verði greining á möguleikum kyngreiningar á sæði hérlendis. Athuga þarf hvert hagræðið af kyngreiningu er, hver hugsanlegur kostnaður geti verið og hvaða leiða má leita til að framkvæma- og fjármagna verkefnið.

 

  1. Fagráð í nautgriparækt – Spenastærð

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til Fagráðs í nautgriparækt að stefna að því að spenar á mjólkurkúm verði hvorki grennri né styttri en orðið er.

Greinargerð: Á undanförnum árum hafa spenar á íslenskum mjólkurkúm styst og grennst mikið, og miðað við reynd naut í notkun er þetta áberandi eiginleiki. Svo virðist í umræðu meðal bænda að það sé víða vandamál að mjólka slíka gripi fyrst eftir burð og getur það leitt af sér ýmis vandamál.

 

  1. Efling á þróunarfé nautgriparæktar

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, leggur til að framlag frá hinu opinbera til þróunarfé nautgriparæktar verði aukið. Ný þekking og tækni er forsenda þess að efla samkeppnishæfni landbúnaðar og ná árangri í umhverfismálum.

Greinargerð: Samkvæmt rammasamningi búvörusamninga á að veita 90 milljónir króna í þróunarfé búgreina.  Af  því  renna  14%  í  þróunarfé  nautgriparæktar  eða  rétt  um  13  milljónir.  Markmið þróunarfjárins er að styðja við kennslu, rannsóknir, leiðbeiningar og þróun í greininni. Ljóst er að þessir fjármunir hrökkva hvergi nærri til að sinna þeim brýnu verkefnum. Mikil þörf er að efla rannsóknir og þekkingu því sífellt er gerð meiri krafa um að nautgriparækt sé rekin með hagkvæmari hætti en nú er og hafi minni neikvæð umhverfisleg áhrif. Einnig mun slík þróun styrkja rekstrargrundvöll búa og bæta vinnuumhverfi bænda. Í umræðum á alþingi í byrjun febrúar 2022 sem og í pistli, lét ráðherra málaflokksins  hafa  eftir  sér  að  árangur  í  loftslagsmálum  væri  forsenda  samkeppnishæfni landbúnaðarins. Slíkum orðum hljóta að fylgja efndir og fjármagn til að efla rannsóknir og þróun til úrlausnar þessara brýnu mála. Ekki síður er þörf á að auka mannauð í rannsóknum, kennslu og leiðbeiningarþjónustu. Til þess að það megi verða þarf að búa til aðlaðandi umhverfi og tryggja aðgengi að fjármunum svo auðveldara verði að fjármagna rannsóknarverkefni nemenda, einkum til MS- og doktorsprófs

  

  1. Vottunarferlar kolefnisspors

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, skorar á stjórn BÍ að beita sér fyrir því að samræmi sé í vottunarferlum kolefnisspors landbúnaðarafurða.

Greinargerð: Í samkomulagi um breytingar á rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins frá 19. febrúar 2016, undirrituð 4. febrúar 2021 segir að: Skal stefnt að því að allar íslenskar landbúnaðarafurðir verði vottaðar sem kolefnishlutlausar fyrir árið 2040. Stjórnvöld verða að skilgreina hvað kolefnishlutleysi þýðir og gæta samræmis í vottunum á innfluttum landbúnaðarafurðum.

   

  1. Fjármögnum umhverfismála

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, skorar á stjórn BÍ að beita sér fyrir því að tryggja nýtt fjármagn í næstu endurskoðun búvörusamninga inn í greinina til að þetta markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 verði að veruleika.

 

  1. Endurvinnsluferill heyrúlluplasts 

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til búnaðarþings að farið verði yfir söfnunar- og endurvinnsluferla vegna notkunar heyrúlluplasts. Með það að markmiði að álagning úrvinnslugjalda endurspegli raunverulegan kostnað til að koma hráefninu í umhverfisvæna endurvinnslu og að leggja þær skyldur á bændur, sveitarfélög og söfnunarfyrirtæki að þessir aðilar sameiginlega verði skylt að tryggja að heyrúlluplast berist til endurvinnslu.

Greinargerð: Komið hefur í ljós að aðkoma úrvinnslusjóðs hefur neikvæð áhrif á hvata til að plast skili sér í heppilega endurvinnslu. Skilagjöld eru endurgreidd miðað við fjarlægð frá næstu útflutningshöfn. Söfnunaraðilar hafa því ekki fengið eðlilega hlutdeild í úrvinnslugjaldinu ef plast þarf að flytja um langan veg í innlenda endurvinnslustaði.

   

  1. Frágangur á landi 

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til stjórnar Bændasamtaka Íslands, að hefja samtal við Landgræðsluna um frágang á landi, þar sem endurheimt votlendis fer fram. Með það að markmiði að frágangur verði með þeim hætti að ekki skapist hættur fyrir menn og skepnur, landið verði nýtanlegt til beitar og jafnframt, þar sem skurðir eru innan endurheimts votlendis, að þeir verði afmáðir úr landinu og landið raunverulega fært til fyrra horfs.

Greinargerð: Landgræðslan hefur umsjón með endurheimt votlendis samkvæmt ákvörðun stjórnvalda. Hefur verið gefin út leiðbeiningarrit um verkatilhögun og vinnur t.d. Votlendissjóður eftir þeirri lýsingu ásamt fulltrúum Landgræðslunnar. Komið hefur í ljós t.d. í Mosdal og í Hraundal (sjá myndir) að frágangur og starfstilhögun er ófullnægjandi út frá náttúruverndarsjónarmiðum, skilur landið eftir í tötrum og skapar mikla hættu fyrir búfé. Bændur sem vilja nýta sér endurheimt votlendi til að kolefnisjafna sína framleiðslu, sem er áhrifamesta aðgerðin í því sambandi, og jafnframt að nýta landið áfram til beitar geta ekki beitt því verklagi sem Landgræðslan leggur upp með. Aðferðin byggir á því að setja margar stíflur í skurði, þannig að pollar myndast í skurðstæðum og skurðirnir verða áberandi áfram í landinu. Sett eru skilyrði um að nota skuli jarðgröfu en ekki jarðýtu. Meta þarf árangur endurheimtar út frá hækkaðri grunnvatnsstöðu en ekki yfirborðsbleytu.

   

  1. Endurskoðun búvörusamninga

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til samninganefndar BÍ í endurskoðun búvörusamninga að beita sér fyrir því að í rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins verði fengið nýtt fjármagn til að koma á fjárfestingastuðning til loftslagsvænna framkvæmda.

 

Greinargerð: Til að ná kolefnishlutleysi í landbúnaði er mikilvægt að fjárfesta í ýmsum loftslagsvænum lausnum. Þar sem stefnt er að því að íslenskur landbúnaður verði að fullu kolefnisjafnaður eigi síðar en 2040 er mikilvægt að fjárfesta í ýmsum loftslagsvænum lausnum og væri fjárfestingastuðningur á borð við þennan hvatning til bænda til að gera það. Dæmi um verkefni sem mætti styðja við á þennan hátt eru lokræsagerð í ræktarlandi, lagning mykjudælulagna til ræktunarspildna, niðurlagningardreifing á mykju, nákvæmnistækni (Precision agriculture), raforkuframleiðsla með metan og orkuskipti, skjólbeltarækt og skógrækt til að auka skjól fyrir tún og akra, aukin jarðrækt til að auka magn og gæði heimaaflaðs fóðurs sem gæti dregið úr innflutningi á kjarnfóðri, og aukin kornrækt til að draga úr innflutningi byggs. Í þessu samhengi má líta til Breta, en breska ríkið leggur til fjármagn í sérstakan sjóð (Farming Investment Fund) sem veitir fjármagn til bænda og landbúnaðarverktaka til að fjárfesta í tækni sem hefur umhverfislegan ávinning og eykur framleiðni.

  

  1. Efling fjárfestingarstuðnings

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til samninganefndar BÍ að við næstu endurskoðun og endurnýjun á búvörusamningum verði fjárfestingastuðningur við greinina elfdur. 

 

  1. Endurskoðun bvs. – beingreiðslur

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, leggur áherslu á að við endurskoðun búvörusamninga verði núverandi skiptingu beingreiðslna viðhaldið.

 

  1. Endurskoðun bvs. – Hámarksverð greiðslumarks

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, hvetur samninganefnd BÍ til að beita sér fyrir því að við endurskoðun búvörusamninga verði kvótamarkarður með hámarksverði enn við lýði og að það hámarksverð verði tvöfalt afurðastöðvaverð.

 

  1. Búvörusamningar 2026

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, hvetur stjórn búgreinadeildar kúabænda til að hefja strax stefnumótunarvinnu um það hvert nautgripabændur vilji stefna við gerð næstu búvörusamninga 2026. Þá stefnumótun verði svo hægt að nota sem vinnuplagg við endurskoðun núverandi samnings sem á að fara fram á næsta ári.

Greinargerð: Með þessum hætti verður mögulega hægt að koma inn í endurskoðun núverandi samnings 2023 að hluta til þeim áherslum sem við viljum horfa til varðandi gerð nýs búvörusamnings sem tekur gildi 2026. Þá er einnig gott fyrir bændur að fá framtíðarstefnu sem þeir geta horft til í sínum uppbyggingar áætlunum.

 

  1. Búvörusamningur 2019

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til samninganefndar BÍ og stjórnar BÍ að æskilegast sé að klára öll atriði búvörusamnings fyrir undirritun og kosningar.

 

  1. Greiðslumark – nýliðar

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, telur að forgangur nýliða á 5% af greiðslumarki á kvótamarkaði skuli halda sér en leggur áherslu á að fjármagn til nýliðunarstuðnings í rammasamningi aukist.

 

  1. Vannýtt greiðslumark

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til stjórnar deildarinnar og Matvælaráðuneytisins (MAR) að hafa betra eftirlit með vannýttu greiðslumarki og koma eftirfarandi inn í búvörulög: Ef greiðslumarkshafi fullnýti ekki greiðslumark sitt í 3 ár samfleytt, verði greiðslumarkshafi að bjóða til sölu á 1. markaði 4. árs það sem aldrei hefur verið nýtt á sl. 3 árum, að öðrum kostum verði greiðslumarkið innleyst. Slíkt ákvæði skal standast ákvæði stjórnarskrár um eignarrétt. Gæta þarf að því að undanþáguheimild vegna einstakra áfalla, t.d. búfjársjúkdóma, náttúruhamfara, o.fl. sé heimil.

Greinargerð: Á aðalfundi Landssambands kúabænda sem haldinn var í Reykjavík 22.-23. Mars 2019 var ályktað að til þess að greiðslumark sé virkt skuli beita þeim úrræðum að ef greiðslumarkshafi fullnýti ekki greiðslumark sitt í 3 ár samfleytt, verði greiðslumarkshafi að bjóða til sölu á 1. markaði 4. árs það sem aldrei hefur verið nýtt á sl. 3 árum, að öðrum kostum verði greiðslumarkið innleyst án endurgjalds og ágóði af sölunni renni óskipt í þróunarfé greinarinnar. Erindið var sent á ANR, MAST og fylgt eftir á fundi.

 

  1. Stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Farið var yfir hvern kafla í stefnumörkun Bændasamtaka Íslands og atkvæði greidd um kaflann. Að lokum voru greitt atkvæði um stefnumörkunina í heild sinni. Samþykktu fundarmenn samhljóma að leggja stefnumörkunina með þeim breytingum sem nefndin gerði til frekari umfjöllunar á búnaðarþingi.   

  

  1. Aukið fjármagn í rannsóknir

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til stjórnar BÍ og stjórnar Búgreinardeildar kúabænda að beita sér fyrir því að auka fé til kynbóta á nytjajurtum, sem og efla rannsóknir í kornrækt og jarðrækt.

Greinargerð: Ljóst er að á komandi árum mun krafa á bændur landsins um meiri sjálfbærni verða enn harðari. Þar sjá kúabændur mikil tækifæri í að framleiða enn meira af sínu fóðri sjálfi. Og það er nauðsynlegt að gera stórátak í ræktunarmálum bænda og bæta enn frekar í rannsóknir á nytjajurtum og þróa yrki sem henta okkar veðurfari og ræktunarskilyrðum. Kornrækt leikur þar lykilhlutverk. Mikilvægt er að þessum verkefnum, sem, stuðla að sjálfbærari fóðuröflun bænda, fylgi nýtt fjármagn. Ekki er í boði að fara í svo stórt verkefni með því að taka það fé úr vasa kúabænda.

 

  1. Tollasamningar ESB

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, samþykkir að stjórn BÍ beiti sér fyrir því að nýr ráðherra málaflokksins hraði vinnu við endurskoðun tollasamninga við ESB til að þeim ljúki sem fyrst.

Greinargerð: Með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og fækkun ferðamanna undanfarin ár er ljóst að forsendur samningsins eru með öllu brostnar. Bretland hefur verið helsti markaður Íslands fyrir útflutning landbúnaðarvara á meðan innflutningur kemur hins vegar að mestu frá öðrum ESB löndum.

  

  1. Fjarskiptakerfi

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til búnaðarþings BÍ og stjórnar BÍ að beita sér í eflingu farsímasambands í dreifbýli. Of margir bæir eru sambandslitlir eða sambandslausir. Gott farsímasamband er mikið öryggistæki fyrir bændur og því nauðsynlegt að unnið sé að því að koma upp traustu fjarskiptaneti í sveitum landsins. BÍ geri úttekt meðal allra félagsmanna hvernig ástand á farsímasambandi sé hjá þeim, niðurstöðum verði komið á framfæri við fjarskiptastofu.

 

  1. Vegakerfið

Búgreinaþing búgreinadeildar kúabænda, haldið í Reykjavík 3.-4. mars 2022, beinir því til búnaðarþings BÍ og stjórnar BÍ að beita sér í eflingu vegakerfis í dreifbýli. Lélegt og úrelt vegakerfi er víða í dreifbýli. Sumir vegir þola ekki þá þá þungaflutninga sem tilheyra búskap, svo sem flutning fóðurs og annarra aðfanga. Lélegt vegakerfi getur hamlað uppbyggingu í sveitum landsins, brýnt er auka hlutdeild vega með bundnu slitlagi.