Beint í efni

Ályktanir aðalfundar LK 2021

12.04.2021

Fundargerð fundarins verður sett á vefinn fljótlega.

Hér má lesa allar þær tillögur sem samþykktar voru á fundinum:

Ályktanir aðalfundar Landssambands kúabænda 6. nóvember 2020.

1. Varaafl á kúabúum

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, hvetur bændur til að tryggja varaafl á búum sínum þar sem að í rafmagnleysi getur skapast neyðarástand sem ógnar velferð dýra.

2. Förgun hræja

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, beinir því til stjórnar BÍ að hefja vinnu með sambandi íslenskra sveitarfélaga að förgun dýrahræja verði komið í viðeigandi horf um allt land.

Greinargerð: Nú er bara einn brennsluofn á landinu og hræ urðuð á þar til gerðum svæðum. Nærtækasta dæmi er riðuveikin sem kom upp í Skagafirði síðast liðið haust þar sem helsta lausnin var að urða sjúkar skepnur. Það er bara tímaspursmál hversu lengi verður leyft að urða dýrahræ og þegar að sá tími kemur þá er ekki tækt að það sé einn ofn á landinu öllu. Flutningur á sýktum hræjum skapar smithættu ef eitthvað kemur fyrir í flutningi.

3. Lagning þriggja fasa rafmagns

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, beinir því til stjórnar Rarik og Orkubús Vestfjarða að standa við áætlun um að ljúka lagningu 3ja fasa rafmagns heim á öll kúabú landsins árið 2023.

Greinargerð: Enn eru of mörg kúabú víðsvegar um landið án 3ja fasa rafmagns. 3ja fasa rafmagn er orðið nauðsynlegt fyrir uppbyggingu á búum og framþróun greinarinnar. Þar að auki er mun meira öryggi í flutningi 3ja fasa rafmagns enda eru þær línur sem eftir eru standandi í vægast sagt misslæmu ástandi.

 4. Úrbætur á fjarskiptakerfi

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, beinir því til stjórnar LK að vekja athygli á og krefjast úrbóta á farsímasambandi víðs vegar um landið. Greinargerð: Enn þann dag í dag eru bæir og staðir um allt land án farsímasambands. Það varðar almannaöryggi íbúa og ferðamanna.

5. Sorpflokkun

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, beinir því til Umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga að samræma söfnunarkerfi, sorpflokkun og förgunarúrræði á landsvísu.

6. Félagskerfi bænda

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, samþykkir að starfsemi samtakanna færist undir Bændasamtök Íslands á grundvelli fyrirliggjandi gagna:

  1. Kynning–nýtt félagskerfi.
  2. Skipulag í nýju félagskerfi.
  3. Hlutverk búnaðarsambanda.
  4. Um búgreinadeildir.
  5. Tímalína breytinga.
  6. Starfsemi búgreinadeildar kúabænda innan Bændasamtaka Íslands

Landssambandi kúabænda verður ekki slitið en starfsemi samtakanna færist undir Bændasamtök Íslands. Skulu sjóðir og eignir LK áfram vera á kennitölu samtakanna og stjórn LK, sem jafnframt er stjórn búgreinadeildarinnar, hafa umsjón með þeim.

Er markmið sameiningar samtakanna við Bændasamtök Íslands að ná fram aukinni skilvirkni og eflingu hagsmunagæslu fyrir íslenskan landbúnað, bæði einstakar búgreinar og í heild. Nýjar samþykktir Bændasamtaka Íslands og þingsköp Búnaðarþings og Búgreinaþings verði lagðar fyrir til samþykktar á Aukabúnaðarþing 10. júní 2021.

7. Kosningar til Búgreinaþings Búgreinadeildar kúabænda innan BÍ

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, beinir því til stjórnar LK og verðandi stjórnar Búgreinadeildar kúabænda innan BÍ, að tryggja sem best lýðræðislega þátttöku kúabænda í kjöri fulltrúa á Búgreinaþing. Kannaðir verði kostir og gallar við eftirfarandi aðferðir:

  1. Rafræn kosning meðal félagsmanna innan kjördeilda
  2. Kosning á fundi kjördeildar kúabænda á viðkomandi svæði
  3. Að kosning í kjördeild fari fram samhliða aðalfundi kúa-/nautgripabænda á viðkomandi svæði.

8. Borgað eftir hverjum tank o.fl.

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, skorar á Mjólkursamsöluna að endurnýja tæki á Rannsóknarstofu mjólkuriðnaðarins yfir í afkastameiri tæki og hafa möguleika á fleiri gerðum efnagreiningar. Þannig megi efnagreina hvern sendan tank frá bændum með tilliti til verðefna og gæðaþátta og greiða eftir hverjum tanki fyrir sig en ekki láta eina mælingu duga fyrir alla vikuna eins og nú er.

Greinagerð: Þetta hlýtur að vera augljóst sanngirnismál bæði fyrir bændur og afurðastöð. Einnig væri spennandi að geta greint fleiri efnaþætti reglulega svo sem beta-hydroxybutrate (BHB) og/eða aceton efnasambönd. Þannig má skima fyrir duldum súrdoða og/eða hjálpa bændum við að hámarka fóðrun og fóðursamsetningu heima á búi, þannig geta bændur aukið afurðasemi gripa per kg fóðurs, stillt af fóðurgjöf í samræmi við niðurstöðu sýna í samráði við dýralækni og fóðurráðgjafa, ná markverðri hagræðingu í rekstri, dregið úr dýralækna- og lyfjakostnaði og þannig stíga mikið framfaraskref í skilvirkni, heilbrigði og velferð gripa.

9. Sæðingastarfsemi

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, skorar á stjórnir Landssambands kúabænda og Bændasamtaka Íslands að leita leiða til þess að jafna sæðingakostnað í nautgriparækt.

Greinagerð: Það er óásættanlegt að kostnaður búa pr sæðingu sé margfaldur á einstökum svæðum miðað við önnur. Allir bændur sem taka þátt í sæðingum leggja sitt af mörkum til kynbótastarfsins sem er að miklu leyti rekið með framlögum af opinberu fé. Aðstæður eru gjörbreyttar frá þeim tíma þegar einstök Búnaðarsambönd ráku kynbótastöðvar með nautahaldi og sæðistöku. Betur gæti farið á því að sæðingarstarfsemi sé á einni hendi, þannig megi nýta mannauð betur, nýta fjármuni til starfseminnar betur, auðvelda afleysingar á milli héraða og bæta þjónustu. Það er sanngirnismál að gjaldtaka fyrir sæðingastarfssemi sé jöfnuð líkt og flutningur á mjólk og sláturgripum.

10. Afhending dýralyfja

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, skorar á stjórn LK að beita sér fyrir breytingum á 11. gr. reglugerðar nr. 539/2000 um heimildir dýralækna til að ávísa lyfjum, þannig að kúabændur megi geyma, í samráði við sinn dýralækni, lágmarksmagn af lyfjum samkv. upptalningu í 11. gr. Lyfin megi bóndinn nota í samráði við dýralækni til þess að geta hafið meðhöndlun á veikum grip án tafar.

Greinagerð: Um mikið dýravelferðarmál er um að ræða en æði oft þurfa bændur að bíða eftir dýralækni til þess að geta hafið meðhöndlun á veikum gripum. Ástæður þessa getur verið sökum m.a. anna, vegalengdar og/eða ófærðar.  Þetta má útfæra á þann hátt að bóndi gerir þjónustusamning við ákveðinn dýralækni um afhendingu og geymslu lyfja til neyðarnotkunar þegar bíða þarf eftir þjónustu dýralæknis. Bóndi er þá skyldugur til þess að taka mjólkursýni til PCR greiningar og að hafa símasamband við dýralækni til að fá heimild til að hefja meðferð.

11. Rafræn skráning sæðinga

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði þann 9. apríl 2021, leggur til við stjórn LK að rafrænni skráningu sæðinga og strikamerktum sæðisstráum verði komið á hið fyrsta. Fundurinn leggur til að Fagráð í nautgriparækt, RML og NBÍ vinni að framgangi á uppfærslu á vinnutilhögun við pöntun og skráningu sæðinga til að draga úr hættu á skráningarvillum.

Greinagerð: Við greiningu á gögnum vegna erfðamengisúrvals hefur komið í ljós mikið af misskráningum við sæðingu gripa, enda bíður gamaldags aðferð upp á það að mistök séu gerð. Á tækniöld er hægt að draga verulega úr og jafnvel útrýma þessum misskráningum og þar með auka áræðanleika gagna. Algengast er að hver pöntun sé handskrifuð af frjótækni þrisvar áður en skráð er í Huppu. Sem dæmi, með því að búa til snjallforrit, eða bæta Huppu, til þess að bændur geti pantað sæðingar rafrænt getur frjótæknirinn skráð sæðingar og fengið lista yfir sæðingar dagsins. Slík kerfi eru notuð erlendis og draga úr misskráningum. Einnig gæti bóndinn séð hvar frjótæknirinn væri staddur til að geta haft kýrnar klárar þegar hann kæmi.

12. Aukið gæðaeftirlit

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði þann 9. apríl 2021, leggur til að auka gæðaeftirlit á sæðistöku og útþynningu sæðis hjá NBÍ ehf og árangri frjótækna. Bændur geti nálgast árangursskýrslu frjótækna í huppu.

13. Þjónusta RML

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, beinir því til stjórnar RML að tryggja það að austurland verði ekki afskipt varðandi þjónustu.

Greinagerð: Um 2 ár liðu á milli heimsókna frá RML til að skoða kvígur á austurlandi. Ekki nóg með þessa skertu þjónustu á svæðinu heldur dregur þetta úr þeim fjölda kúa sem fá dóm og nýtast þ.a.l. við útreikninga á kynbótamati óreyndra nauta.

14. Kvíguskoðun

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, beinir því til stjórnar RML að kvíguskoðun fari fram að lágmarki einu sinni á ári á hverju búi.

Greinagerð: Þar sem RML fær fjármagn úr búvörusamningi til að vinna að kvíguskoðunum, er það skýlaus krafa kúabænda að kvíguskoðun sé framkvæmd að lágmarki einu sinni á ári á hverju búi. Það er nauðsynlegt til að fá sem mest öryggi á kynbótamat óreyndra nauta að sem flestir gripir séu á bakvið útreikningana.

15. Tollamál

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, krefst þess að fjármála-og efnahagsráðherra svari strax skriflegri fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni, um innflutning á osti og kjöti, frá 7. desember 2020.

Þingskjalið er nr. 517 –385

Mál á 151. Löggjafarþingi 2020-2021.

151. löggjafarþing 2020–2021.Þingskjal 517—385. mál. Fyrirspurntil fjármála-og efnahagsráðherra um innflutning á osti og kjöti.

Frá Þorsteini Sæmundssyni.

  1. Hve mikið var flutt inn af osti í eftirfarandi flokkum á árinu 2019 og fyrstu sex mánuði ársins 2020:
    1. upprunamerktur ostur innan tollkvóta fyrir osta samkvæmt samningi við ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur sem tók gildi 1. maí 2018 sem hafa vottun sem „Product of Geographic Indication“ (PGI) eða „Product of Designated Origin“ (PDO),
    2. annar ostur frá ESB-löndum innan tollkvóta samkvæmt samningi við ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur sem tók gildi 1. maí 2018,
    3. ostur frá Noregi og Sviss sem fellur undir tollkvóta fyrir EFTA,
    4. ostur sem fluttur er inn samkvæmt auglýstum tollkvóta ágrundvelli WTO-samningsins, annar innfluttur ostur sem almennir tollar eru greiddir af samkvæmt gildandi tollskrá?
  2. Hve mikið var flutt inn af kjöti í eftirfarandi flokkum á árinu 2019 og fyrstu sex mánuði ársins 2020:
    1. samkvæmt tollkvóta í samningi við ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur sem tók gildi 1. maí 2018,b.samkvæmt tollkvóta á grundvelli WTO-samningsins,
    2. samkvæmt tollkvóta fyrir EFTA,
    3. innflutningur á almennum tollum?

Svar óskast sundurliðað eftir tegund kjöts, þ.e. nautakjöt, svínakjöt, alifuglakjöt, pylsur (tollskrárnúmer 1601), unnar kjötvörur (tollskrárnúmer 1602) og fuglsegg (tollskrárnúmer 0407).

Skriflegt svar óskast.

16. Tollamál

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, krefur fjármálaráðherra svara um nokkur atriði er snerta meinta ranga skráningu innflytjenda á tollskrárnúmerum landbúnaðarafurða:

  1. Hvernig stendur rannsókn tollayfirvalda á meintri rangri skráningu innflytjenda á tollskrárnúmerum landbúnaðarafurða sbr. meðal annars bréf ríkisskattstjóra til lögmanna Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði frá 23. júní 2020?
  2. Hversu mörg fyrirtæki eru til rannsóknar?
  3. Hversu mörg mál eru til rannsóknar?
  4. Hversu mörgum málum hefur verið vísað til rannsóknardeildar tollstjóraembættisins?
  5. Hversu mörgum málum hefur þegar verið vísað til héraðssaksóknara?
  6. Hvert er verkefni starfshóps sem fjármálaráðherra skipaði til aðskoða þessi mál þann 23. janúar 2021?
  7. Hvenær á starfshópurinn að ljúka störfum og hver verða næstu skref?

Fundurinn krefst þess að stjórnvöld tryggi þegar í stað að röng skráning á innfluttum búvörum í tollflokka verði upprætt og heimildum til endurákvörðunar tolla eða öðrum álögum verði beitt eftir því sem við á. Ólíðandi er að ekki hafi verið brugðist við með eðlilegum hætti af tollayfirvöldum/stjórnvöldum þegar rökstuddur grunur er um að alvarleg tollsvik hafi átt sér stað þegar flutt er inn vara á röngu tollnúmeri.

17. Tollasamningur við Evrópusambandið

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, ítrekar fyrri afstöðu og krefst þess að stjórnvöld leiti allra leiða til að segja upp samningi við ESB um tolla og tollfrjálsa kvóta fyrir búvörur, frá 17. september 2015. Með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og fækkun ferðamanna undanfarin ár er ljóst að forsendur samningsins eru með öllu brostnar. Bretland hefur verið helsti markaður Íslands fyrir útflutning landbúnaðarvara á meðan innflutningur kemur hins vegar að mestu frá öðrum ESB löndum.

18. Búnaðarstofa

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021  tekur heilshugar undir bókun stjórnar Bændasamtaka Íslands á stjórnarfundi þann 18. febrúar sl. að eftirfarandi mál ættu ekki að liggja hjá stofnun sem væri undir yfirstjórn annars samningsaðila búvörusamninga. Heldur hjá sjálfstæðri stofnun er lúti sérstakri stjórn, þó hún heyri stjórnfarslega undir landbúnaðarráðherra:

  1. Framkvæmd búvörusamninga.
  2. Hagtölusöfnun í landbúnaði.
  3. Eftirlit með markmiðum búvörusamninga.

Stjórn BÍ samþykkti samhljóða að óska eftir áliti umboðsmanns Alþingis á stjórnsýslulegu fyrirkomulagi við framkvæmd búvörusamninga innan atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneytisins.

Greinargerð: Búnaðarstofa var áður sjálfsstæð eining vistuð hjá Bændasamtökum Íslands og síðar hjá Matvælastofnun. Þar var safnað upplýsingum um búfjárhald, beingreiðslur fyrir framleiðslu greiddar út ofl. Með flutningi búnaðarstofu inní ráðuneytið eru möguleikar bænda til að skjóta ágreiningsmálum um ráðstöfun fjármuna og önnur atriði á grundvelli búvörusamninga til æðra stjórnvalds úr sögunni, þar með er eini möguleiki bænda, telji þeir á sér brotið, að leita beint til dómstóla. Auk þess er umsýsla komin beint undir annan samningsaðila búvörusamninga.

19. Verðlagsgrundvöllur mjólkurframleiðslu

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, leggur til að verðlagsgrundvöllur mjólkurframleiðslu verði endurskoðaður.

20. Matvælasjóður

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 9. apríl 2021, beinir því til stjórnar LK að gera athugasemd við úthlutanir úr Matvælasjóði 16. 12. 2020.

Greinargerð: Rökstuðningur fyrir úthlutun þarf að vera faglegur, málefnalegur og byggður á þekkingu á málaflokknum. Við síðustu úthlutun úr Matvælasjóði voru styrkir til landbúnaðar-tengdra verkefna umtalsvert lægri en til annarra.

21. Endurmenntun

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði þann 9. apríl 2021,  skorar á LbhÍ að efla endurmenntunarmöguleika bænda og þeirra sem starfa við landbúnað og matvælaframleiðslu. Lítið framboð hefur verið af námskeiðum í endurmenntunardeild LbhÍ síðustu ár sem gagnast bændum við að endurnýja þekkingu sína á mikilvægum bústjórnarþáttum s.s. jarðrækt, bústjórn, kynbótum, notkun nýrrar tækni o.s.frv. LbhÍ getur í samstarfi við RML, búgreinafélög, búnaðarfélög o.fl. greint námsþörf og útbúið námskeiðsefni.

 22. Efling innlendrar fóðurræktunar

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði þann 9. apríl 2021, beinir því til stjórnar LK að vinna að eflingu innlendrar fóðurræktar þannig að ræktun innlends fóðurs geti staðið undir sér sem búgrein.

Greinargerð: Í aukinni ræktun á íslensku fóðri er tækifæri fyrir bændur að mæta kröfum nútímans um heilnæmi og sjálfbærni. Eins getur aukin ræktun skapað tækifæri fyrir bændur með minni búskap en gott land til þess að auka afkomu sína. Aukin ræktun á innlendu fóðri myndi því styrkja sveitir landsins á margan máta.

23. Yrkjaprófanir og kynbætur nytjaplantna

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði þann 9. apríl 2021, hvetur landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra til að tryggja fasta árlega fjárveitingu til Landbúnaðarháskóla Íslands til yrkjaprófana og kynbóta helstu nytjaplantna sem nota má til skepnufóðurs og/eða manneldis.

Greinargerð: Til að stuðla að eflingu innlendrar fóðurframleiðslu og nýta betur auðlindir og minnka kolefnisspor afurða er nauðsynlegt að bændum standi alltaf til boða bestu nytjaplöntuyrkin miðað við íslenskar aðstæður. Hagsmunafélög bænda og ráðherra landbúnaðarmála ættu að tryggja að slík starfsemi fari fram með opinberu fjármagni, t.d. í gegnum rammasamning um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins.

24. Kolefnisjöfnun á búum

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði þann 9. apríl 2021, beinir því til stjórnar LK að vinna að því að gefnar verði út leiðbeiningar um hvernig bændur geti unnið að kolefnisjöfnun á sínum búum, og að unnið verði í því að bændur geti á auðveldan hátt reiknað út losun og binding á sínu búi.

Greinargerð: Það að draga úr kolefnislosun virðist vera lausnarorðið í landbúnaði um þessar

mundir. Komið hefur í ljós að losun á íslenskum landbúnaðarvörum er ekki endilega

sambærileg við erlendar. Einnig virðast bændur ekki vera mikið upplýstir um hver þeirra losun er og hvað sé hægt að gera til að draga úr losun. Eins hvernig bindingu kolefnis er háttað á hverjum bæ. Því er nauðsynlegt að komið sé á leiðbeiningum fyrir bændur svo þeir geti gert sér grein fyrir hver losun og binding er á þeirra býli.

25. Rannsóknir á kolefnislosun

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði þann 9. apríl 2021, skorar á ríkisstjórn Íslands að veita fjármunum í rannsóknir á raunverulegri losun og bindingu lands á kolefni hérlendis svo hægt verði að notast við raunverulega staðla þegar verið er að reikna út kolefnisspor íslenskrar framleiðslu.

Greinargerð:  Mikil umræða er í þjóðfélaginu í dag um kolefnislosun landbúnaðarvara. Til að geta reiknað hin og þessi kolefnisspor er nauðsynlegt að forsendur útreikninga séu réttar. Því er galið að alltaf sé notast við staðla sem óvíst er að eigi við hérlendis. Ef taka eigi umræðuna alvarlega er nauðsynlegt að hafa staðla sem raunverulega eigi við hér á landi. Einnig styrkir það við verkefnið loftslagsvænn landbúnaður.

26. Matarspor EFLU

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði þann 9. apríl 2021, skorar á EFLU að skýra betur forsendur útreikninga og framsetningu Matarsporsins og geri þá aðgengilega almenningi.

Greinargerð: Ljóst er að rangar upplýsingar í Matarsporsverkefni Eflu (reiknivél um kolefnisspor máltíða), hafa valdið íslenskum bændum ímyndarlegu tjóni. Leita má lögfræðilegs álits um réttarstöðu greinarinnar.

27. Nýtt kennsluefni í nautgriparækt

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði þann 9. apríl 2021, fagnar komandi útgáfu nýrrar kennslubókar um nautgriparækt.

28. Erfðamengisúrval í nautgriparækt

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði þann 9. apríl 2021, hvetur stjórn LK til að fylgja eftir vekefninu um erfðamengisúrval þannig að það nái að klárast sem fyrst.

29. Bann við notkun pálmaolíu

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði þann 9. apríl 2021 beinir því til stjórnar LK að kanna, greina og meta kosti og galla þess að bannað verði að nota pálmaolíu og afurðir unnar úr pálmaolíu í fóður nautgripa á Íslandi. Einnig verði skoðaður uppruni þeirrar pálmaolíu sem notuð er á hverjum tíma.

Greinargerð: Pálmaolía er unnin úr aldin ákveðinnar pálmategundar og er notuð um allan heim við matvælaframleiðslu, iðnaðarframleiðslu og til fóðurs. Framleiðsla alþjóðlegra stórfyrirtækja á pálmaolíu hefur verið einn af stóru áhrifaþáttunum við eyðingu frumskóga heimsins og eyðileggingar búsvæða sjaldgæfra dýrategunda í útrýmingarhættu. Eyðing skóganna og umbreyting landsins í ræktunarjarðveg dæla milljónum tonna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið á ári hverju. Pálmaolía er ekki nauðsynleg í fóðri nautgripa en hefur verið notuð til að auka fitu í mjólk en uppi eru efasemdir um gæði þeirrar fitu sem sem pálmaolían skilar í mjólkina. Sum nágrannalönd okkar hafa bannað notkun á pálmaolíu í skepnufóður vegna umhverfissjónarmiða og er eðlilegt að það sé einnig gert hér á landi.

30. Fjármögnun yrkjarannsókna

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði þann 9. apríl 2021, beinir því til BÍ að skoða grundvöll fyrir gjaldtöku af fræinnflutningi í rannsóknarsjóð til að fjármagna rannsóknir á yrkjum til ræktunar nytjaplantna í landbúnaði.