
Ályktanir aðalfundar LK 2020
16.11.2020
22 ályktanir voru samþykktar á aðalfundi Landssambands kúabænda, sem haldinn var í fjarfundi 6. nóvember 2020. Meðal þeirra eru ályktanir um tollamál, heimild kjötafurðastöðva til frekara samstarfs, uppbyggingu rannsóknaraðstöðu á Hvanneyri og umhverfismál svo eitthvað sé nefnt.
Fundargerð fundarins verður sett á vefinn fljótlega.
Hér má lesa allar þær tillögur sem samþykktar voru á fundinum:
Ályktanir aðalfundar Landssambands kúabænda 6. nóvember 2020.
- Uppsögn tollasamnings Íslands við Evrópusambandið
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, krefst þess að stjórnvöld leiti allra leiða til að segja upp samningi við ESB um tolla og tollfrjálsa kvóta fyrir búvörur, frá 17. september 2015. Með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og fækkun ferðamanna undanfarin ár er ljóst að forsendur samningsins eru með öllu brostnar. Bretland hefur verið helsti markaður Íslands fyrir útflutning landbúnaðarvara á meðan innflutningur kemur hins vegar að mestu frá öðrum ESB löndum.
- Rannsaka þarf ósamræmi í tollflokkun landbúnaðarvara
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, skorar á fjármálaráðherra að leggja höfuðáherslu á að komast til botns í því af hverju misræmi í útflutningstölum frá Evrópusambandinu og innflutningstölum Hagstofunnar stafar og grípa til nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir slíkt. Ljóst er að eftirliti er mjög ábótavant og hugsanlega um alvarleg lögbrot að ræða. Um er að ræða gríðarlega hagsmuni fyrir kúabændur, neytendur, ríkissjóð og fyrirtæki sem sannanlega fara eftir settum lögum og reglum.
Þá krefst fundurinn þess að tollflokkun á ostum, sem ranglega hafa verið fluttir inn og tollafgreiddir sem jurtaostar á tollskrárnúmerinu 2106.9068, verði leiðrétt hið fyrsta. Í sumar tilkynnti Tollgæslustjóri að umræddar vörur yrðu framvegis tollflokkaðar í 4. kafla tollskrár eins og annar ostur. Þrátt fyrir það var í ágúst 2020 slegið met í magni sem flutt var inn á tollnúmeri 2106.9068.
- Fallið verði frá nýrri úthlutunaraðferð á tollkvótum
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, beinir því til landbúnaðarráðherra að fallið verði frá þeirri nýju úthlutunaraðferð á tollkvótum sem tók gildi um mitt þetta ár, á sama tíma og tollkvótar eru að stóraukast. Verð á tollkvótum fyrir nautgripakjöt hefur lækkað um 75% frá ársbyrjun 2019 og með nýrri úthlutunaraðferð lækkaði verð um 40% frá fyrra útboði í ársbyrjun 2020. Verð á tollkvótum fyrir osta lækkaði um 5,5% frá fyrra útboði í byrjun árs 2020 og hefur frá byrjun árs 2019 lækkað um 12%. Þessar lækkanir hafa ekki skilað sér til neytenda. Miklar verðlækkanir hafa dunið á íslenskum nautakjötsframleiðendum á sama tíma, og ef fer sem horfir er hætta á að sá árangur sem náðst hefur í greininni undanfarin ár verði fyrir bí. Þannig hefur verð til nautakjötsframleiðenda lækkað um 11,4% en vísitala nautakjöts hækkað um 6,5% frá ársbyrjun 2018.
- Endurskoðun félagskerfis bænda
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, tekur undir ályktun Búnaðarþings 2020 um endurskipulagningu félagskerfis bænda, þar sem stjórn BÍ er falið að leggja fram tillögur að nýju og fullmótuðu skipulagi félagskerfis eigi síðar en á Búnaðarþingi 2021. Lögð er rík áhersla á að staða hagsmunagæslu nautgripabænda verði tryggð í nýju skipulagi, sem taki mið af umfangi greinarinnar innan landbúnaðarins hér á landi. Fundurinn beinir því til stjórnar LK að vinna náið með stjórn Bændasamtaka Íslands að framgangi málsins.
Greinargerð: Nefnd um endurskipulagningu á félagskerfi bænda skilaði tillögu til Búnaðarþings 2020. Í afgreiðslu þingsins var lögð sérstök áhersla á eftirfarandi þætti við þá endurskipulagningu:
- Ein öflug hagsmunasamtök fyrir landbúnaðinn.
- Bein aðild félagsmanna að BÍ með veltutengdu félagsgjaldi.
- Byggt á tveimur megin stoðum, bændum og landbúnaðartengdum fyrirtækjum.
Bein aðild bænda að Bændasamtökum Íslands kallar á allsherjar endurskoðun á uppbyggingu og starfsemi núverandi aðildarfélaga BÍ. Nautgriparæktin hefur um árabil staðið undir 40-45% af efnahagslegum umsvifum landbúnaðar á Íslandi. Sú staðreynd þarf að endurspeglast í starfsemi og áherslum heildarsamtaka bænda hér á landi, eigi þau að vera öflugur málsvari landbúnaðarins.
- Skoðanakönnun meðal kúabænda
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, leggur til að staðið verði fyrir skoðanakönnun meðal nautgripabænda um framtíðaráform í búskap. Hafi menn áform um að hætta búskap þá skal greint hverjar ástæðurnar séu.
- Samskiptasíða LK
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, beinir því til stjórnar LK að kanna þörf fyrir sérstakan samskiptavettvang fyrir nautgripabændur. Um yrði að ræða lokaðan samskiptahóp félagsmanna í LK til að skiptast á skoðunum. Vettvangurinn myndi einnig nýtast stjórn til að viðra málefni eða efna til óformlegra skoðanakannana.
- Umhverfismál
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, hvetur stjórn LK til að vinna að framförum í loftslagsmálum fyrir greinina og að nautgriparæktin verði kolefnisjöfnuð fyrir árið 2040. Í þeirri vinnu verði stuðst við þau markmið og aðgerðir sem eru lagðar til í skýrslu starfshóps um loftslagsmál nautgriparæktarinnar. Jafnframt hvetur fundurinn stjórn til þess að skoða útfærslu á mögulegri staðfestingu eða vottun kolefnishlutlausra kúabúa.
Skorar fundurinn á landbúnaðarráðherra að leggja greininni til nýtt fé til framkvæmda á bújörðum sem ætlaðar eru til að draga úr plastnotkun, minnka kolefnislosun og auka kolefnisbindingu.
Greinargerð: Starfshópur um loftslagsmál í nautgriparækt var skipaður í framhaldi af undirritun samkomulags um endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar þar sem m.a. kemur fram það markmið að íslensk nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð eigi síðar en árið 2040. Starfshópurinn skilaði skýrslu af sér í maí 2020 þar tekin eru saman víðtæk markmið og leiðir að kolefnishlutleysi greinarinnar. Starfshópurinn leggur megináherlsur á að fram að næstu endurskoðun búvörusamninga 2023 verði tími og fjármunir nýttir annars vegar til að bæta þau gögn sem liggja til grundvallar losunarbókhaldinu í nautgriparækt og hins vegar til fræðsluverkefna. Þýðingarmikið er að bændur hafi aðgang að sem bestum gögnum um losun frá sínum búum, séu meðvitaðir um hana og þá möguleika sem þeir hafa til að draga úr henni. Fjármunir sem verða til ráðstöfunar eftir endurskoðunina 2023 verði síðan nýttir til að ýta undir beinar aðgerðir á búunum.
- Verðlagsmál
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, beinir því til starfshóps um verðlagsmál, og nefnd sem vinnur að landbúnaðarstefnu Íslands, greina þróun á afkomu kúabænda síðastliðin 20 ár og bera saman við launaþróun í landinu á sama tíma. Við endurskoðun verðlagsmála verði kjörum bænda haldið til haga og ekki hrundið af stað breytingum á núverandi kerfi nema að vel ígrunduðu máli. Haft verði að leiðarljósi að breytingar raski ekki forsendum búvörusamnings þar sem ákveðið var að halda í kvótakerfi og að greiðslur til bænda út á framleiðslu séu tryggðar. Fundurinn leggur áherslu á að áfram skuli opinber aðili ákvarða lágmarksverð frá afurðastöð til bænda þar sem ákveðið hefur verið að halda í framleiðslustýringu í formi kvótakerfis.
- Útflutningur
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, beinir því til mjólkuriðnaðarins að nýta sína útflutningsgátt, Ísey Export, til þess að koma íslenskum mjólkurafurðum á sem hæstum verðum á erlenda markaði. Leggur fundurinn höfuðáherslu á að ávinningur leyfisgjalda Ísey Export vegna skyrsölu erlendis skili sér til íslenskra kúabænda.
- Efnahalli
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, hvetur mjólkuriðnaðinn til að halda áfram með nýsköpun og vöruþróun mjólkurvara á próteingrunni, ásamt því að auka útflutningstækifæri í gegnum Ísey Export, til að mæta efnahalla sem nú er kominn í 22,6 milljónir lítra. Finna þarf farveg fyrir þessa framleiðslu svo að bæði mjólkuriðnaðurinn og bændur hafi arð af.
- Styrking gæðastjórnunnar
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, beinir því til stjórnar LK, að auka samskipti sín og samstarf við mjólkuriðnaðinn til að styrkja frekar gæðastjórnun.
- Heimild kjötafurðastöðva til frekara samstarfs
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu nautakjötsframleiðslu á Íslandi. Nautgripabændur hafa þurft að þola miklar verðlækkanir undanfarna mánuði, en verðlækkanir það sem af er ári samsvara um 150 milljón króna tekjutapi fyrir greinina á ársgrundvelli. Er þess krafist að í stað þess að stöðugt sé gengið á hlut bænda, sem nú þegar er af ansi skornum skammti, sé greininni búið eðlilegt starfsumhverfi, ráðist verði í frekari hagræðingaraðgerðir innan afurðastöðva og stjórnvöld geri þeim kleift að gera það. Með aukinni samkeppni við innfluttar landbúnaðarafurðir á ódýrum aðflutningsgjöldum og miklum launahækkunum hefur geta afurðastöðva til að greiða bændum ásættanlegt verð fyrir afurðir okkar skaðast verulega.
Auk aðgerða í tollamálum er því beint til stjórnvalda að veita afurðastöðvum í kjötframleiðslu heimild til að hafa með sér ákveðið samstarf og verkaskiptingu á markaði. Með því mætti ná fram töluverðri hagræðingu á ýmsum sviðum rekstrarins og rými skapast til að borga bændum ásættanlegt verð fyrir sínar afurðir.
- Álagsgreiðslur á nautgripi
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, beinir því til stjórnar LK að beita sér fyrir því að álagsgreiðslur hætti á P+ gripi og neðar og greiðist eftirleiðis einungis á gripi O- og ofar með það að markmiði að auka og styðja betur við framleiðslu íslensks nautakjöts af meiri gæðum. Þá verði einnig skoðað að þyngdarmörk nautgripa til að fá álagsgreiðslur verði hækkuð og að tekið verði tillit til aldurs gripa.
- Uppbygging rannsóknaraðstöðu á Hvanneyri
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020, styður hugmyndir LbhÍ um uppbyggingu á fullbúinni rannsóknaraðstöðu fyrir mjólkurframleiðslu og nautgriparækt á Hvanneyri. Í dag er engin viðunandi rannsóknaraðstaða á landinu sem er til þessa fallin en núverandi aðstaða í kennslu- og rannsóknarfjósi LbhÍ er með öllu ófullnægjandi til að stunda hágæða rannsóknir í fóðrun og aðbúnaði nautgripa.
- Framlag til þróunar og rannsókna
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, beinir því til stjórnar LK að tryggja skuli aukið framlag til þróunar og rannsókna í nautgriparækt með auknum fjárframlögum í þróunarfé nautgriparæktarinnar ellegar skoða kosti þess að stofna sérstakan vísindasjóð.
- Erfðamengisúrval í íslenskri nautgriparækt
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í fjarfundarbúnaði 6. nóvember 2020, beinir því til stjórna LK, BÍ og RML að tryggja fjármögnun innleiðingar og rekstur erfðamengisúrvals í íslenskri nautgriparækt og koma í gagnið svo hratt sem kostur er. Við fjármögnun verkefna sem þarf að ráðast í til innleiðingar sé meðal annars sótt um styrki úr Matvælasjóði og þróunarfé nautgriparæktar og einnig litið til fjármuna af samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar. Fyrir liggur að utanumhald og rekstur verkefnisins til framtíðar er kostnaðarsamt og tryggja þarf framtíðarfjármögnun þess. Beinir fundurinn því til stjórnar LK að tryggja verkefninu framtíðarfjármagn.
Að mati kúabænda er ekki eftir neinu að bíða með að hefja innleiðingu á þessari byltingarkenndu aðferð, sem hefur það að markmiði að skera úr um kynbótagildi gripa fljótlega eftir að þeir koma í heiminn. Fyrir liggur að fá ef nokkur verkefni en það sem hér um ræðir, geta með öruggari hætti dregið úr framleiðslukostnaði og þar með aukið samkeppnishæfni, sjálfbærni og verðmætasköpun í mjólkurframleiðslu til frambúðar.
- Aðgengi að dýralæknum
Aðalfundur LK, haldinn í fjarfundi 6. nóvember 2020, gerir alvarlega athugasemd að víða um land séu fáir dýralæknar á bakvakt á stórum svæðum þar sem eru langar vegalengdir og illfærir vegir að vetri, slíkt kemur niður á velferð og þjónustu við bændur. Í samræmi við nýja reglugerðir (nr 405/2020 og nr 406/2020) verður að tryggja aðgengi að dýralæknum enda um mikilvæga grunnþjónustu að ræða fyrir nautgripabændur og aðra bændur.
- Forgangsröðun fjárfestingastuðnings
Aðalfundur LK, haldinn í fjarfundi 6. nóvember 2020, leggur til að fjárfestingarstuðningi úr samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar verði forgangsraðað í þágu framkvæmda sem hafa að markmiði að uppfylla ákvæði reglugerðar um velferð nautgripa nr. 1065/2014 og reglugerðar um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri nr. 804/1999. Mótaðar verði tillögur þar að lútandi á vettvangi samtaka nautgripabænda sem fundinn verði staður í reglugerð um stuðning í nautgriparækt.
Greinagerð: Undanfarin ár hefur ásókn í fjárfestingastuðning úr samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar verið langt umfram þær fjárhæðir sem ráðstafað er í þann lið samningsins. Skerðast allar samþykktar umsóknir hlutfallslega ef fjármunir hrökkva ekki til, án tillits til þess að hve miklu leyti viðkomandi framkvæmd samrýmist markmiðum með fjárfestingastuðningi. Enn eru nokkuð á þriðja hundrað básafjós í notkun hér á landi, frá sjónarhóli dýravelferðar er mikilvægt að endurnýjun þeirra yfir í lausagöngu verði hraðað sem kostur er. Þá eru fimm ár frá því að undanþáguákvæði reglugerðar 804/1999 frá sex mánaða geymslurými fyrir búfjáráburð féll úr gildi og því afar brýnt að fullnægjandi haugrými verði komið upp alls staðar svo fljótt sem verða má. Í nýrri skýrslu Eflu verkfræðistofu um kolefnisspor íslenskrar nautgriparæktar, kemur fram að um 20% af kolefnisspori nautgriparæktarinnar má rekja til notkunar og meðhöndlunar á húsdýraáburði. Dreifing búfjáráburðar við óhentugar aðstæður dregur einnig úr nýtingu næringarefna og skaðar ímynd greinarinnar.
- Eftirfylgni með fanghlutfalli
Aðalfundur LK, haldinn í fjarfundi 6. nóvember 2020, leggur til að Nautastöðin fylgist með fanghlutfalli hjá kúm bænda og árangri frjótækna og geri tillögur að úrbótum þegar þurfa þykir. Jafnframt verði sæðingamönnum tryggð endurmenntun með reglulegu millibili og þá jafnvel í samstarfi við erlenda aðila.
Greinargerð: Með tillögunni, sem er að norskri fyrirmynd, er lagt til ákveðin eftirfylgni með fanghlutfalli til að bæta fanghlutfall. Í Noregi eru frjótæknar teknir í námsskeið og próf ef fanghlutfall sæðinga fellur niður fyrir ákveðna prósentu. Þeir bændur sem ná ekki viðunandi árangri verður boðið upp á ráðgjöf til að bæta úr. Þá er einnig gagnlegt fyrir aðra bændur að vita sínar tölur til að bæta fanghlutfall kúa. Það sparað talsverða fjármuni ef sæðingar ganga betur og þannig lækkað sæðingargjöldum.
- Samrekstur búa
Aðalfundur LK haldinn í fjarfundi 6. nóvember áréttir að starfshópur (starfshópur um aðlögunarsamninga, minni bú o.fl.) sem kanna átti kosti/galla og mögulegar útfærslur á samrekstri kúabúa skili tillögum og niðurstöðu fyrir 31. desember 2020.
- Fræðslufundir bænda
Aðalfundur LK, haldinn í fjarfundi 6. nóvember 2020, ályktar að gott væri að efla tengingu RML, LK og aðra aðila við bændur og efla félagslegar tengingar bænda, sér í lagi á tímum Covid-19. Góð fyrirmynd eru fjarfundir sem RML hélt síðasta vor um ákveðin málefni og kynnti einnig starfsemi RML fyrir bændum. Þannig má ræða um hvað er að gerast í nautgriparæktinni t.d kynna ýmis frávik/upplýsingar sem má lesa út úr skýrsluhaldinu á landsvísu, t.a.m. sveiflur í frjósemi, heygæðum o.fl.
- DNA gripamerki
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. nóvember 2020 í fjarfundabúnaði leggur til kúabændum standi til boða gripamerki sem taka DNA sýni úr gripunum um leið og kálfar eru merktir, eins og skylt er að gera skv. reglugerð 965/2012 um merkingar búfjár. Slík merki hafa fengist um nokkurt skeið hjá framleiðanda og nefnast þau OS ID TST®.
Greinargerð: Eitt af grundvallaratriðum í erfðamengisúrvali er að grunnerfðahópurinn sé sem tengdastur stofninum eins og hann er á hverjum tíma. Ein skilvirkasta leiðin að viðhaldi grunnerfðahópsins er að tekin verði í notkun gripamerki sem taka DNA sýni um leið og þau eru sett í kálfinn.