Beint í efni

Alvarlegur litningagalli sem veldur fósturláti

07.12.2016

Bandaríska Holstein nautið Pawnee Farm Arlinda Chief var mikið afburðanaut á sínum tíma og var gríðarlega mikið notaður í ræktunarstarfinu í Bandaríkjunum og raunar víðar. Undan honum hafa komið mörg yfirburðanaut og má segja að hann sé eiginlega Sokki þeirra Bandaríkjamanna en talið er að 14% alls erfðaefnisins í kúm landsins sé í raun frá honum komið en Pawnee Farm Arlinda Chief var fæddur árið 1962.

 

Nú hafa erfðarannsóknir hinsvegar sýnt fram á að Pawnee Farm Arlinda Chief bar með sér alvarlegan litningagalla sem veldur minni frjósemi mjólkurkúa og getur valdið fósturláti. Alls er talið að 2,5 milljónir mjólkurkúa í heiminum hafi nú þennan erfðagalla frá þessu fræga nauti og hafa vísindamenn vi bandaríska háskólann í Illinois reiknað út að líklega megi rekja 525 þúsund fósturlát hjá kúm til þessa erfðagalla á síðustu 35 árum. Áætla vísindamenn þessir að tap kúabænda heimsins vegna þessa erfðagalla nemi tæplega 50 milljörðum íslenskra króna! Á móti kemur hins vegar að Pawnee Farm Arlinda Chief gaf af sér einstaklega afurðamikla gripi og nytaukning hans ein og sér hefur verið metin 3.300 milljarða íslenskra króna virði, svo ávinningurinn er þrátt fyrir allt verulegur.

 

Áhrifum Pawnee Farm Arlinda Chief á ræktun Holstein kúa í dag fer þó þverrandi í dag eftir að nákvæmar greiningar á erfðaefni gátu fundið framangreindan galla. Öll naut eru því skoðuð með þetta í huga og valin frá í ræktunarstarfinu í dag/SS