
Alvarlegur ágreiningur setur WTO-viðræður í hnút
12.09.2003
Mikil óeining um hvernig eigi að draga úr landbúnaðarstuðningi hefur sett viðræður aðildarlanda WTO í hnút, samkvæmt fréttavef JP í Danmörku. Þrátt fyrir þetta er gert ráð fyrir að samningar náist á sunnudag eða mánudag. Á þessum fimmta ráðherrafundi WTO hafa Evrópusambandið og Bandaríkin snúið bökum saman í viðræðunum og takast á við önnur lönd, með Brasilíu og Indland í broddi fylkingar.
Í lok dagsins í dag var ljóst að töluvert ber á milli landanna í landbúnaðarmálum og var loftið spennuþrungið á fundinum. 23 lönd, sem reyndar kallast „Hópur 21“ (G 21) vegna upprunalega fjölda landanna í hópnum, hafa lagt fram kröfu á hendur Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um að draga verulega úr landbúnaðarstyrkjum og að opna markaði hinna þróuðu ríkja betur.
Útspil G 21 hópsins kom nokkuð óvænt inn í samningaviðræðurnar en er erfitt viðfangs, þar sem hópurinn fer fram á hámarks eftirgjöf ES og Bandaríkjanna en hópurinn hefur lítið að gefa eftir. Þá virðist hópurinn eiga það eitt sameiginlegt að vera samstíga í landbúnaðaráherslum gagnvart ES og Bandaríkjunum, en svotil ósammála um alla aðra þætti í milliríkjaviðskiptum. Þessi staðreynd hefur veikt samningsstöðu hópsins verulega.
Staða viðræðnanna er þannig núna (kl. 23.00) að nýtt uppkast að samkomulagi mun líta dagsins ljós á morgun (laugardag) og kemur þá í ljós hvort valdablokkirnar innan WTO geti sætt sig við það sem þar mun koma fram. Eingöngu verður unnið upp nýtt uppkast að samkomulagi í landbúnaðarmálum, en hinir fimm málaflokkarnir standa mun nær samkomulagi og er þar áfram unnið eftir drögum sem kynnt voru fyrir byrjun fundarins í Cancun.
Byggt á frétt vefblaðs Jyllands-Posten