Beint í efni

Alvarlegar athugasemdir við könnun MMR

08.09.2010

Landssamband kúabænda gerir alvarlegar athugasemdir við könnun Markaðs- og miðlarannsókna ehf. á viðhorfum almennings í garð álagningu sekta á afurðastöðvar. Spurning MMR hljóðaði svo:

 

Hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ertu því að mjólkursamlög sem taka á móti mjólk umfram greiðslumark (kvóta) séu beitt fjársektum?

 

Hér er grundvallar misskilningur á ferðinni. Það varðar ekki, og mun ekki varða fjársektum að taka við mjólk umfram greiðslumark. Slíkt hafa mjólkursamlög á Íslandi gert í áraraðir og munu áfram gera, svo lengi sem mjólkurframleiðslan hér á landi er umfram þarfir innanlandsmarkaðarins. Mjólk umfram greiðslumark hefur verið flutt úr landi, eins og skylt er samkvæmt lögum sem gilt hafa sl. 25 ár.

Sl. 12 mánuði hafa verið fluttar úr landi 6,3 milljónir lítra á próteingrunni og 11,7 milljónir lítra á fitugrunni.

 

Skv. frumvarpi til breytinga á búvörulögum, sem liggur fyrir Alþingi og hefur farið í gegnum 2. umræðu, skal það varða sekt ef afurðastöð tekur við mjólk umfram greiðslumark og markaðssetur afurðir úr henni á innanlandsmarkaði. Að mati Landssambands kúabænda er mjög ámælisvert að MMR hafi ekki haft þann hluta setningarinnar sem hér er feitletraður með í spurningunni.

 

Eins og LK hefur ítrekað bent á, er algjörlega sambærilegt fyrirkomulag og lagt er til í frumvarpinu við lýði öllum þeim löndum þar sem mjólkurframleiðslan býr við kvótakerfi.

 

Hliðstæður er einnig að finna í öðrum atvinnugreinum. Dæmi um slíkt er akstur leigubifreiða. Alþingi Íslendinga hefur skilgreint markað fyrir leigubílaakstur sem takmarkaða auðlind, sbr. lög nr. 134/2001. Á grundvelli þeirra gefur samgönguráðherra út reglugerð sem segir til um hámarksfjölda leyfa til leigubifreiðaaksturs í nokkrum sveitarfélögum landsins, Reykjavík og nágrannasveitarfélög (560 leyfi), Akureyri (21), Árborg (8) og Reykjanesbæ og nágrannasveitarfélög (41). „Brot gegn reglugerð þessari geta varðað sektum og/eða leyfissviptingu, sbr. 11. gr. laga nr. 134/2001, um leigubifreiðar“.

 

Að mati LK eru akstur leigubifreiðar án leyfis og markaðssetning mjólkur utan greiðslumarks á innanlandsmarkað, mjög sambærilegir hlutir. Er ekki eðlilegt að ríkisvaldið, sem sett hefur lagaumgjörðina um þá báða, fylgi henni eftir? Svar Landssambands kúabænda er afdráttarlaust játandi.