Beint í efni

Alþjóðlegu “jógúrtstríði” lokið!

30.07.2003

Óskajógúrt frá MSEftir hart nær 25 ára deilur um hvað sé í raun jógúrt, hefur verið skorið úr um það. CAC (Codex Alimentarius Commission, sem er sjálfstæð stofnun undir WHO (alþjóðlegu heilbrigðisstofnuninni) og FAO (matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna)) hefur úrskurðað að til að selja jógúrt, undir nafninu „jógúrt“, þá skal viðkomandi mjólkurafurð innihalda lifandi gerla. Niðurstaðan getur haft mikil áhrif á heimsviðskipti með mjólkurafurðir, m.a. hér á landi.

Ástæða þess að CAC úrskurðaði um málið var deila á milli Spánverja og annarra landa um skilgreiningu á því hvað sé jógúrt. Spænska stórfyrirtækið Pascual hefur á liðnum árum framleitt mikið magn af búðingi sem hefur hátt geymsluþol og selt hann sem jógúrt. Afurðin er framleidd á hefðbundinn hátt, sem jógúrt, en háhitameðhöndluð og því eru engir lifandi gerlar í afurðinni. Margar þjóðir hafa stoppað af innflutning á þessari afurð, þar sem afurðin var ekki talin uppfylla skilyrði um jógúrt. Á hinn bóginn hafa sum lönd, m.a. Ísland, leyft innflutning á þessari afurð. sem jógúrt.

 

Mikilvægt var talið að fá úrskurð um málið, enda markaðir fyrir geymsluþols-mjólkurafurðir ört vaxandi, m.a. í Asíu, Ameríku og Austur-Evrópu og áríðandi að allar skilgreiningar á vörum séu á hreinu.

 

Ekki liggur fyrir hvaða áhrif þessi niðurstaða CAC hefur á innflutning hingað til lands á Pascual-búðinginum.