Beint í efni

Alþjóðlegt ár líffræðilegrar fjölbreytni

11.01.2010

Í dag er ýtt úr vör Alþjóðlegu ári líffræðilegrar fjölbreytni sem hefur kjörorðin Líffræðileg fjölbreytni er lífið - líffræðileg fjölbreytni er líf okkar. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir bændur um allan heim þar sem líffræðileg fjölbreytni og landbúnaður eru háð innbyrðis; hvort tveggja gegnir einnig lykilhlutverki í loftslags- og fæðuöryggismálum. Það er sameiginleg ábyrgð þeirra sem hagsmuna hafa að gæta um allan heim að varðveita líffræðilega fjölbreytni og bændur eru reiðubúnir að leggja sitt af mörkum.

Alþjóðasamtök búvöruframleiðenda (IFAP) hyggjast á þessu ári beina athygli að því lykilhlutverki sem bændur gegna í varðveislu vistkerfa. Samtökin skora einnig á ríkisstjórnir og þjóðir heims að setja í gildi áætlanir um trygga framtíð líffræðilegrar fjölbreytni jarðar um leið og tryggt verði að bændur hafi nauðsynleg úrræði til að auka matvælaframleiðslu um 70 prósent fyrir árið 2050 til þess að fæða vaxandi fjölda jarðarbúa.

“Aðalatriðið fyrir bændur er að öðlast viðurkenningu á þeim margþættu hlutverkum sem búist er við að landbúnaður gegni og finna réttu leiðirnar til að standa undir þeim. Við þurfum að hjálpa og hvetja bændur til að bæta núverandi starfshætti um leið og við gætum þess að þeir geti unnið fjölskyldum sínum farborða og verið samkeppnishæfir á markaði. Þetta starf þarf allt að vinna á sama tíma, því að öðrum kosti er hætta á að fæðuöryggi verði ábótavant eða að vistkerfum verði stofnað í hættu", sagði Ajay Vashee, forseti IFAP.

Bændur skilja þörfina á að vernda og varðveita líffræðilega fjölbreytni og þekkja sitt hlutverk í því starfi. Um leið er mikilvægt að landbúnaðarstarfsemi þeirra verði áfram efnahagslega lífvænleg. Árið 2010 ætla samtökin að freista þess að finna góð og langvinn úrræði sem bændur geta framfylgt til þess að varðveita betur og efla líffræðilega fjölbreytni og samtökin hyggjast einnig hvetja ríkisstjórnir til að taka upp jákvæða og uppbyggilega stefnu í málinu skv. Sáttmála SÞ um líffræðilega fjölbreytni.

“Með aðgerðum á borð við að taka frá land fyrir dýralíf og innfæddar tegundir, varðveislubúskap, lífrænan búskap, skógrækt, kvikfjárrækt, beitarstýringu og uppgræðslu óræktarlands leggja bændur sitt af mörkum til varðveislu og verndunar líffræðilegrar fjölbreytni. Engu að síður deila bændur þessari ábyrgð með þjóðfélaginu í heild. Allir hagsmunaaðilar þurfa að vera með. Ef þetta starf til að draga úr þróun í átt að líffræðilegri fábreytni á að fara fram um allan heim þurfa bændur viðeigandi fjármögnun og jákvæða hvata á borð við greiðslu fyrir vistkerfaþjónustu, fræðslu og skýra stefnu til þess að árangur náist”, sagði Ajay Vashee.

Til þess að ná árangri í varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni mæla alþjóðasamtök bænda með eftirfarandi aðgerðum:

- Ríkisstjórnir marki stefnu um örugg kerfi vegna umráðaréttar lands og viðeigandi grunnvirki sem gerir bændum kleift að fjárfesta til langs tíma í búskaparaðferðum sem efla líffræðilega fjölbreytni.

- Efnahagslegt samstarf þróunaríkja og þróaðra ríkja með það markmið að flytja og taka upp stjórnunarkerfi, til dæmis lánakerfi og stækkunarþjónustu.

- Viðurkenning á kunnáttu innfæddra bænda á sviði stjórnunar og varðveislu auðlinda.

- Auknu fjármagni verði veitt til vísindarannsókna sem renna stoðum undir þróun og góðan skilning á tengslum landbúnaðar og stjórnunar við líffræðilega fjölbreytni. Dreifa skal vísindalegri þekkingu og niðurstöðum, sundurliðuðum og í beinum tengslum við mannlífið á hverjum stað fyrir sig.

- Aukin þátttaka bænda í mótun og innleiðingu vísindaverkefna og byggðaþróunar í dreifbýli til að efla líffræðilega fjölbreytni.

- Aukin samræming stefnu og skipulagning umhverfislöggjafar sem snertir búvöruframleiðslu. Oft fást ólík ráðuneyti og stofnanir við einstök mál án samstarfs við hin. Einnig þarf að auka getuna til að framfylgja löggjöf á samræmdan hátt.

- Samþætting verkáætlunar CBD (Ráðstefnu SÞ um líffræðilega fjölbreytni) á sviði líffjölbreytni í landbúnaði við verkáætlanir annarra marghliða umhverfissamninga á borð við UNFCCC (Loftslagssamning SÞ) og UNCCD (Samning SÞ gegn eyðimerkurmyndun), auk áætlana um fæðuöryggi og byggðaþróun í dreifbýli.

IFAP setur líffræðilega fjölbreytni sem forgangsmál í stefnu sambandsins fyrir árið 2010. "Finna má sjálfbærar lausnir og margar slíkar eru þegar tiltækar”, sagði forseti IFAP, “en ábyrgðin verður að hvíla sameiginlega á öllum sem eiga hagsmuna að gæta".

IFAP er rödd bænda á alþjóðavettvangi, samband 600 milljóna fjölskyldubænda í 120 landssamtökum í 80 löndum. Samtökin hafa gætt hagsmuna bænda á alþjóðavettvangi frá árinu 1946. Hlutverk IFAP er að auka áhrif bænda á ákvarðanir sem að þeim lúta á innanlands- og alþjóðavettvangi. www.ifap.org