Beint í efni

Alþjóðlegi mjólkurdagurinn er í dag 1. júní

01.06.2022

Próteineiginleikar íslensku mjólkurinnar eru sérstæðir og jákvæðir fyrir hollustu og gæði. Hin sérstaka próteinsamsetning gerir það að verkum að íslenska mjólkin hentar einstaklega vel til ostagerðar. Einnig eru tilgátur uppi um að próteinsamsetningin gefi vörn gegn sykursýki í börnum.Öll mjólkurframleiðsla á Íslandi byggist á landnámskyni íslensku kýrinnar sem rakin hefur verið aftur til landnáms um 874 en hún er skyldast norska kyninu „Sidet Trønder og Nordlandsfe“.

Kúamjólk er um 87 prósent vatn og 13 prósent fast efni. Fituhluti mjólkurinnar inniheldur fituleysanleg vítamín. Föst efni önnur en fita eru prótein, kolvetni, vatnsleysanleg vítamín og steinefni. Þessi næringarefni í mjólk hjálpa til við að gera hana að næstum fullkomni náttúrlegri fæðu.

Mjólkurvörur innihalda hágæða prótein. Mysupróteinin eru um 18 prósent af próteininnihaldi mjólkur. Ostprótín (Kasein) sem finnst aðeins í mjólk, inniheldur allar nauðsynlegar amínósýrur. Það stendur fyrir 82 prósent af heildarpróteinum í mjólk og er notað sem staðall til að meta prótein úr öðrum matvælum. Prótein er nauðsynlegt til að byggja upp og gera við líkamsvef og til að mynda mótefni sem streyma í blóðinu og hjálpa til við að berjast gegn sýkingum. Mjólkurprótín eru rík af amínósýrunni lýsíni, en mörg prótín úr plönturíkinu innihalda lýsín í takmörkuðu magni og því má segja að mjólkurprótín bæti plöntuprótín upp hvað þennan þátt varðar.

Mjólk inniheldur einnig kalsíum, fosfór, magnesíum og kalíum. Kalsíum í mjólk frásogast auðveldlega í líkamanum og fosfór gegnir hlutverki við upptöku og nýtingu kalsíums. Fosfór er nauðsynlegt í réttu hlutfalli við kalsíum til að mynda bein og er hlutfall þessara steinefna  í mjólk um það bil sama hlutfalli og finnst í beinum. Mjólk er einnig mikilvæg uppspretta ríbóflavíns (B2 vítamíns) sem hjálpar til við að stuðla að heilbrigðri húð og augum, auk A- og D-vítamíns.

Hjá fullorðnum getur kalsíumskortur, ásamt öðrum þáttum, leitt til beinskemmda sem kallast beinþynning. Ráðleggingar um kalsíum eru 1.000 milligrömm fyrir fullorðna, 1.300 milligrömm á dag fyrir unglinga, 500-800 milligrömm á dag fyrir ung börn og 1.200 milligrömm á dag fyrir fullorðna eldri en 51 árs. Einn skammtur af mjólk inniheldur um 250 milligrömm af kalsíum. Erfitt er að fá nægjanlegt kalsíum án mjólkur og mjólkurafurða í fæðunni. Um 73 prósent af því kalsíum sem fáanlegt er í matvælum kemur frá mjólk og mjólkurvörum.

Notkun hormóna við mjólkurframleiðslu á Íslandi er bönnuð og lyfjanotkun afar lítil.