Alþjóðlegi beinverndardagurinn í dag!
20.10.2011
Í dag er alþjóðlegi beinverndardagurinn en yfirskrift dagsins er „hreyfing og næring“ en haldið er upp á daginn í 94 löndum af 200 félagasamtökum um beinvernd. Af þessu tilefni hefur Beinvernd nú gefið út nýjan bækling sem nefnist „Þrjú skref í vörn gegn beinbrotum“ (D-vítamín, kalk og hreyfing). Hér er á ferðinni viðamikill bæklingur um forvarnir gegn beinþynningu. Þeir sem áhuga hafa á að fá bæklinginn hafi sambandi við Beinvernd á netfangið: beinvernd@beinvernd.is. Beinvernd undirbýr einnig viðburð í samvinnu við Kvenfélaga-samband Íslands sem teygir arma sína um allt land, fram fer kvennaganga „ göngum fyrir beinin“ þann 22. október.
Landssamtökin Beinvernd hafa verið starfrækt síðan árið 1997 og hefur Fræðslunefnd íslenska mjólkuriðnaðarins (áður Markaðsnefnd) að tilstuðlan LK, verið bakhjarl Beinverndarsamtakanna nánast frá því að samtökin voru stofnuð eða frá 20. október 1999. Um árabil útfærði Fræðslunefndin í samvinnu við Beinvernd umfangsmikla auglýsingaherferð („Sérfræðinga-auglýsingar“) í sjónvarpi og öðrum miðlum. Ýmsir þekktir læknar og sérfræðingar komu þar fram fyrir skjöldu og hvöttu til aukinnar hreyfingar sem forvörn gegn beinþynningu ásamt neyslu D-vítamíns og kalkríkra mjólkurvara. Markmiðið var að koma af stað vitundarvakningu og kannanir bentu ótvírætt til þess að auglýsingarnar juku meðvitund neytenda um beinþynningu. Fræðslunefndin útvegaði Beinverndarsamtökunum beinþéttnimæli sem notaður er til að styðja við fræðslu og kynningarstarf samtakanna. Jafnframt hefur Fræðslunefndin stutt útgáfu á fréttabréfum Beinverndar sem hafa komið út tvisvar á ári síðan árið 2003 og verið dreift á heilsugæslustöðvar, sjúkrahús og á fleiri valda staði/SS.