Beint í efni

Alsjálfvirkir róbótar skafa flórana!

28.08.2010

Flórsköfuróbóta má núorðið finna á nokkrum stöðum hér á landi, en alls eru á annan tug slíkra tækja í gangi dag hvern. Í dag fást keyptar tvær gerðir slíkra alsjálfvirkra flórsköfuróbóta, annarsvegar Lely frá VB landbúnaði og hinsvegar Joz-tech frá Vélaval-Varmahlíð. Gerðirnar tvær vinna með svipuðum hætti, þ.e. keyra sjálfvirkt eftir flórum fjósanna og skafa skítinn frá skepnunum. Kostirnir eru margvíslegir en auðvitað fyrst og fremst að fjósin sem nota þessa tækni haldast ákaflega hrein, sem er sér í lagi mikilvægt þar sem notaðir eru mjaltaþjónar.

 

Líklegt er að margir kúabændur séu þeirri fullyrðingu

 

sammála að það að skafa skít er líklega með leiðinlegri verkum á annars afar skemmtilegum vinnustað; fjósinu. Fyrstu bráðabirgðaniðurstöður úr verkefninu “Betri fjós”, sem unnið er af Landbúnaðarháskólanum, benda einnig til þess að þessi verkþáttur fái afar lágan „ánægjustuðul“ við einkunnagjöf.

 

Nánari upplýsingar um Lely Discovery flórgoðann (upplýsingar frá umboðsaðila):

 

Lely Discovery er sjálfvirk flórskafa sem sér um að halda fjósinu hreinu. Hún er að allan sólarhringinn alla daga ársins – óþreytandi við að þrífa gólf.Tækið er búið gervigreind og jafnvel þar sem umferð er mest og þröng á þingi þrífur Lely Discovery rækilega og sneyðir sjálfvirkt hjá öllum hindrunum – þar á meðal fótum kúa og/eða kálfa. Vinna við uppsetningu er auðveld og umsjón einföld. Einungis þarf að setja upp hleðslustöðina. Með E-fjarstýringunni ákveður bóndinn þær leiðir sem Discovery er ætlað að þræða í fjósinu. Með sjálfvirku Discovery-flórsköfunni má þrífa flór á steinbitum og og gangvegum nautgripa á virkasta og hagkvæmasta hátt. Eins og gildir um önnur Lely-tæki er Discovery ódýr í rekstri og viðhaldsþörf í lágmarki. Discovery er bæði smá og kná. Vegna þess hve hún er lág fer hún auðveldlega undir stíugrindur og hliðslár.

 

Nánari upplýsingar um Joz-tech flórsköfuróbótann (upplýsingar frá umboðsaðila):

 

Joz-tech flórsköfuþjarkurinn er alsjálfvirkur þegar búið er að kenna honum einhverja leið í fjósinu, þá keyrir hann þessa leið á þeim tíma sem stilltur er inn. Þá er jafnframt hægt að hafa fjölda leiða í minni. Í dag er hægt að fá þessa þjarka með sérstökum liftubúnaði, þ.e. að hægt er að lifta sköfunni, ef skafa þarf í eina átt. Þessi kostur er sérlega heppilegur þar sem ekki eru steinbitar eingöngu, og þá þarf þjarkurinn að koma mykjunni á bitana til að losa. Þjarkana er einnig hægt að fá með vatnssprautun eða úðun fyrir framan sköfuna, sem kemur í veg fyrir að mykjan þorni of mikið og skefst því betur. Kúabóndinn kemur þá fyrir sérstökum vatnstönkum sem þjarkurinn keyrir að og fyllir á sjálfkrafa um leið og hann fer og hleður sig upp af rafmagni.