Almennur félagsfundur Mjólkurbús Borgfirðinga krefst leiðréttingar á mjólkurverði
17.01.2011
Almennur félagsfundur Mjólkurbús Borgfirðinga (félag kúabænda á sunnanverðu Snæfellsnesi og Borgarfirði), haldinn á Hótel Hamri 14. janúar 2011, lýsir yfir megnri óánægju með að enn skuli ekki hafa verið ákveðið nýtt mjólkurverð, og undrast þá þolinmæði sem L.K. og B.Í. virðast sýna viðsemjendum sínum í verðlagsnefnd.
Greinargerð:
Mjólkurverð var síðast leiðrétt haustið 2008. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hafa afleiðingar gengisfalls krónunnar í kjölfar bankahrunsins komið fram af fullum þunga í verði aðfanga og síðustu mánuði hafa auk þess dunið á verulegar hækkanir á heimsmarkaðsverði, m.a. á korni og olíu. Þessum hækkunum geta bændur aðeins mætt með því að skerða laun sín og má ætla að launaskerðing þeirra sé nú að jafnaði orðin a.m.k. 25 %, á sumum búum meiri. Þar við bætist að í og eftir bankahrunið snarhækkuðu skuldir bænda. Nú er svo komið að ekki verður lengur höggvið í sama knérunn án alvarlegra afleiðinga fyrir stéttina. Því brýnir fundurinn fyrir fulltrúum L.K. og B.Í. að koma fram af fullri einurð við nýja verðákvörðun í verðlagsnefnd.