
Allt til í Japan
10.07.2017
Í Japan eru básafjós enn mjög algeng og útivist kúa lítið stunduð. Fyrir vikið eru þær bundnar á bása sína allar vikur ársins og á sumrin getur það verið afar mikil áskorun vegna sumarhita og hættu á hitastreitu kúa. Þekktar lausnir, til þess að kæla kýrnar, eru úðakerfi og öflug loftræstikerfi sem stundum eru einnig með kælikerfi. Nú kann þó að vera fundin áhugaverð lausn á þessu vandamáli í básafjósum en það er japanska fyrirtækið Gunze sem hefur hannað sérstaka kúa-treyju með kælikerfi!
Eins og sést á meðfylgjandi mynd eru kýrnar klæddar í treyju sem nær yfir hálsinn og bóginn og eru skynjarar í treyjunni sem nema líkamshita kýrinnar. Ef hann hækkar, fer sérstakt kælikerfi í gang en það virkar þannig að vatni er veitt út í gegnum treyjuna og þegar það gufar upp veldur það kólnun skinnsins.
Þessi búnaður hefur nú verið í prófun og hefur hann reynst vel og náð að koma í veg fyrir fall í mjólkurframleiðslunni þegar hitinn er sem mestur, en vel þekkt er að framleiðslan getur fallið verulega fái kýrnar hitastreitu/SS.