Beint í efni

„Allt“ til á veraldarvefnum

18.05.2013

Það kemur nú fáum hér á landi á óvart að nánast „allt“ má núorðið nálgast á veraldarvefnum. Starfsumhverfi bænda breytist þannig hægt og rólega, sem og að sjálfsögðu þeirra sem þá þjónusta. Fyrirtækið Lely, sem m.a. framleiðir mjaltaþjóna og önnur tæki og tól fyrir landbúnað, hefur alltaf verið framarlega þegar rætt er um nýtingu á vefnum til þess að miðla upplýsingum. Heimasíða þeirra (www.lely.com) er afar góð líkt og síður margra fyrirtækja, en einsog margar aðrar síður getur verið svo mikið af upplýsingum á þeim að það er nánast ógerningur að finna þær!

 

Við gerum því hér tilraun til þess að stytta leiðina fyrir áhugasama. Ein undirsíðan er nefninlega einkar góð en hún heitir „Farming tips“ sem mætti etv. skýra „Búráð“ eða eitthvað í þá veru. Á þessari undirsíðu má fræðast um ýmislegt varðandi tæki og tól Lely, viðhald þeirra osfrv. og þarna má bæði kynnast góðum vinnubrögðum sem og stórauka endingu tækjanna, enda rétt viðhald mikilvægt.

 

Sem dæmi má nefna afar greinargóða lýsingu á réttu viðhaldi á sköfuróbótum en í dag eru trúlega slíkir í gangi í u.þ.b. 30 fjósum hér á landi. Þessi tæki þurfa að sjálfsögðu alltaf að vera í lagi en það er ekki sama hvernig hugsað er um skófuróbótana.

 

Þarna kemur m.a. fram að ekki má nota háþrýstidælu við þrif á róbótunum og þá má ekki þvo með vatni of oft! Svo eru þarna sýndar greinargóðar myndir af því hvernig skipt er um eðlilega slitfleti og auk þess farið yfir helstu viðkvæmu staðina sem passa þarf upp á varðandi stillingar ofl. Þetta er bara nefnt hér sem dæmi, enda mörg önnur góð ráð til á þessari heimasíðu.

 

Með því að smella hér má komast á þessa skemmtilegu undirsíðu Lely:www.lely.com/en/farming-tips

 

Hér má svo lesa (á ensku) leiðbeiningarnar sem nefndar eru hér að ofan:

www.lely.com/en/farming-tips/maintenance-of-the-lely-discovery-mobile-barn-cleaner

 

Þó svo að hér hafi eitt fyrirtæki verið tekið út, eru að sjálfsögðu mörg önnur með afar góðar heimasíður einnig en oft er það svo, eins og á heimasíðu Lely, að það getur verið all flókið að finna hinar „réttu“ upplýsingar. Við hvetjum því lesendur naut.is til þess að senda okkur upplýsingar (sendist til: skrifstofa hjá naut.is) um áhugaverðar heimasíður sem vert er að vekja athygli á, sér í lagi ef fyrirtækin eru með handhægar upplýsingar s.s. varðandi viðhald, stillingar oþh./SS.