Allt kjöt verður merkt upprunamerkt
05.08.2011
Þing Evrópusambandsins hefur loksins fallist á nýjar reglur um upprunarmerkingar kjötvara en nú verður brátt skylda að merkja allt kjöt upprunalandi sínu með skýrum og greinargóðum hætti. Þannig verður óheimilt að selja kjöt og/eða unnar kjötvörur sem ekki eru merktar skilmerkilega upprunalandi sínu. Hingað til hafa eingöngu verið í gildi reglur um þetta varðandi nautakjöt en nú ná s.s. nýju lögin einnig til annarra kjöttegunda.
Er þetta gert til þess að auðvelda neytendum val á öruggum matvælum enda mikill munur á milli framleiðsluaðferða landanna sem eiga aðild að Evrópusambandinu, svo ekki sé nú talað um Noreg og Ísland sem ganga oft mun lengra í kröfunum.
Evrópuþingið náði þó ekki samstöðu um merkingar á öðrum matvælum og verður því áfram heimilt að selja t.d. kex eða niðursoðnar matvörur án þess að geta þess með skýrum hætti hvar í heiminum viðkomandi matvara er framleidd. Hagsmunaaðilar innfluttra matvæla frá löndum utan Evrópusambandins komu einnig í veg fyrir að merkja skyldi sérstaklega grænmeti og ávexti sem hafa fengið yfirborðsmeðhöndlun og/eða skordýraeitur og höfðu þar betur gegn hagsmunasamtökum evrópskra bænda. Það verður því áfram heimilt að selja slíkar vörur við hlið hreinna og ómeðhöndlaðra ávaxta og grænmetis.
Minnir þetta mál óneytanlega á svipað mál frá Bandaríkjunum frá því fyrir nokkrum árum þegar kúabændum var bannað að auglýsa mjólk sem væri framleidd án þess að nota aukalega framleiðsluhvetjandi hormóna. Þar urðu bændur að lúta í lægra haldi fyrir sterkri hagsmunagæslu bæði fyrirtækjanna sem framleiða hormóna og fyrirtækja sem selja mjólkurvörur sem byggja á mjólk sem er framleidd með hormónum/SS.