Beint í efni

Allt að 800 kúabúum hafnað?

30.01.2018

Sem stendur stefnir allt í að allt að 800 írsk kúabú muni ekki geta selt mjólk sína á árinu þar sem þau uppfylla ekki kröfur afurðastöðva landsins um fyrirmyndarbúskap. Samkvæmt írskum fréttamiðlum er afar breytilegt á milli afurðastöðva og landssvæða hvernig staðan er en nú um áramótin tóku gildi hertar kröfur til framleiðenda landsins og um áramótin höfðu 15.643 bú uppfyllt kröfurnar en sá fjöldi svarar til 87,9% kúabúa landsins. Með öðrum orðum þýðir það að rúmlega 2.000 bú hafa ekki uppfyllt skilyrðin en þó er það metið svo að um 60% þeirra muni ná því fljótlega. Út af standa þá um 800 bú sem óvissa er með, mörg hver í eigu eldri kúabænda í gömlum fjósum.

Þessar kröfur afurðastöðvanna ganga lengra en lög og reglugerðir landsins svo búin hafa mjólkursöluleyfi en bara enga kaupendur í landinu. Með þessum aðgerðum eru írsku afurðafélögin að stíga mjög áþekk skref og mörg önnur evrópsk afurðafélög þ.e. að gera ríkari kröfur til sinna innleggjenda en lágmarkskröfur hins opinbera s.s. hvað snertir aðbúnað gripa.

Í fyrstu munu þau bú sem ekki uppfylla skilyrðin fá sektir frá sínum afurðastöðvum og ef þau ganga ekki í það að lagfæra það sem út af stendur liggur fyrir að þau munu ekki hafa kaupendur að mjólkinni síðar á árinu/SS.