Beint í efni

Allt að 20 ára fangelsi fyrir að stela kú!

06.10.2011

Í Bandaríkjunum er ekki tekið neinum vettlingatökum á þeim sem stela en líklega bjóst nú hinn tuttugu ára gamli Graysen Randy Anderson ekki við því að þurfa að dúsa í mörg ár á bak við lás og slá fyrir kúaþjófnað.  Anderson þessi var hinsvegar svo óheppinn að hafa stolið og slátrað afar verðmætri verðlaunakú og að fremja brotið í Somerset í New Jersey! Hann á reyndar að baki all nokkra sögu og því bætist nú kúaþjófnaður við langan feril sem tekur m.a. til íkveikju, innbrota, ólöglegrar meðferðar skotvopna ofl.
 
Að sögn lögreglunnar náðist kappinn ásamt tveimur öðrum mönnum á heimili eins þeirra, eftir að þeir höfðu slátrað holdakú af Angus kyni og þegar þeir voru handteknir snarkaði í pönnunni á heimilinu þar sem dýrindis steik var rétt að verða tilbúin. Anderson hefur nú viðurkennt brot sitt sem „skemmdarverk í landbúnaði“ fyrir dómi og bíður nú uppkvaðningu dóms en hann getur fengið allt að 20 ára fangelsi fyrir brot sem þetta í ljósi fyrri afbrota/SS.