Beint í efni

Allt á hvolfi

23.08.2014

Miklar breytingar á heimsmarkaðsverði mjólkurvara undanfarna mánuði hafa komið mörgum í opna skjöldu og því fara menn mikinn nú í því að finna skýringar á lækkuninni. Mest breyting á kauphegðun hefur orðið í Asíu en undanfarin ár hafa Kínverjar kallað eftir mjólkurvörum og bændur víða um heim keppst við að framleiða meira og meira af mjólk. Nú gerist það hins vegar að Kínverjar hafa keypt inn, á þessu ári, langtum minna magn en talið var að markaðurinn þar tæki við.

 

Þeger leitað er skýringa á þessu kemur í ljós að síðasta ár styrkti Kína birgðastöðu landsins verulega af mjólkurdufti en á sama tíma var mjólkurframleiðsla landsins afar döpur. Nú hefur hins vegar gengið vel með framleiðslu mjólkur í landinu, m.a. vegna hagstæðra veðurfarsskilyrða, og því hefur ekki þurft eins mikið innflutt mjólkurduft og í fyrra.

 

Þessa þróun mátti reyndar sjá fyrir og hafði hollenski landbúnaðarbankinn Rabobank einmitt varað við þessari þróun en þó kom ráðamönnum þar á bæ nokkuð á óvart hve hraðar breytingar urðu á innflutninginum til Kína. Til þess að setja þetta í samhengi þá var flutt til landsins fyrstu þrjá mánuði þessa árs nærri 70% alls þess magns sem flutt var inn allt árið 2013. Næstu þrjá mánuði þar á eftir hefur Kína nánast algjörlega dregið sig frá heimsmarkaðsviðskiptum með mjólkurduft og munar um minna enda landið oft keypt nærri 50% þess magns sem var í boði á uppboðsmarkaðinum GDT!

 

En það eru fleiri skýringar á því að markaðurinn er óstöðugur og heimsmarkaðsverðið um leið. Hagstæð veðurfarsskilyrði hafa nefninlega ekki eingöngu komið kínverskum kúabændum til góða heldur einnig kollegum þeirra í Nýja-Sjálandi en nú stefnir í enn eitt framleiðslumetið í landinu eftir góða sprettutíð. Þá eru kúabændur í löndum Evrópusambandsins á fullu í því að búa sig undir afnám kvótakerfisins og veldur það einnig spennu á markaðinum.

 

En hvernig lítur þá framtíðin út? Aftur er rétt að horfa á hlutina í samhengi og til að mynda þá nemur innflutningurinn til Kína ekki nema um 10% af hinni árlegu þörf landsins fyrir mjólkurduft svo afar líklegt er að landið þurfi á ný á dufti að halda. Telur Rabobank að landið muni kaupa aftur duft í haust enda líklegt að mjólkurduft vanti í byrjun næsta árs, líkt og í ár, en það er það tímabil í Kína þegar mjólkurframleiðslan er í lágmarki. En hvenær vænta megi þess að ró færist yfir markaðinn á ný er etv. enn of snemmt að spá fyrir um, sér í lagi í ljósi lokunar hins rússneska markaðar. Á móti kemur að þegar verðið er lágt á dufti, eins og nú er, þá ýtir það oft undir aukna framleiðslu í löndum sem áður hafa ekki verið að gera sig gildandi sem stór neyslulönd mjólkurvara. Þannig byggist upp nýr markaður og nýjir neytendur bætast í hóp hinna og því er kakan enn að stækka. T.d. er talið að núverandi markaðsaðstæður muni efla mjög neyslu mjólkurvara í bæði Suður-Ameríku og Afríku en þegar heimsmarkaðsverðið var sem hæst, varð samdráttur í sölu mjólkurvara í þessum álfum/SS.