
Allir Angus nautgripir Nautís seldir
05.07.2022
Á vef Búnaðarsambands Suðurlands var greint frá því að í morgun, þriðjudaginn 5. júlí voru opnuð tilboð í þá 12 gripi hjá Nautís sem boðnir voru til kaups.
Alls bárust 18 tilboð í gripina og seldust þeir allir. Meðalverð á nautunum var 1.435 þúsund krónur. Meðalverð á kálffullu kvígunum var 1.227 þúsund og ársgömlu kvígurnar seldust á 653 þúsund að meðaltali.
Kvígurnar og kálffullu kvígurnar eru tilbúnar til afhendingar ásamt þeim nautum sem ekki á að taka sæði úr, en sæðistaka hefst úr nautunum strax í fyrramálið. Nautin verða síðan afhent nýjum eigendum um leið og nægjanlegt magn af sæði næst úr þeim.
Hver aðili mátti einungis fá eitt naut og eina kvígu. Tilboðshafar máttu bjóða í fleiri en einn grip en var gefinn kostur á að segja sig frá tilboðum og geta þannig fengið ódýrari gripi ef þeir óskuðu svo. Yfirlit yfir verðtilboðin sem bárust má lesa hér.
Fyrir áhugasama má lesa um nautin sem seld voru í síðasta tölublaði Bændablaðsins (12. tölublaði), sem og á vef Bændablaðsins.
Óskum við nýjum eigendum innilega til hamingju með þessa stórglæsilegu gripi!