Beint í efni

Álitsgerð vegna takmarkana á innflutningi kjöts frá 2001

07.05.2008

Álitsgerð þeirra félaga Eiríks Tómassonar og Skúla Magnússonar frá 2001, sem formaður LK gat um á innleggi sínu á kýrhausnum í morgun er nú að finna hér.

Helstu niðurstöður þeirra félaga voru eftirfarandi:

 

„Reglur EES-samningsins um frjálsa för vara taka ekki til lifandi dýra eða hrárra kjötvara. Unnar kjötvörur falla enn fremur utan reglnanna, nema í þeim tilvikum sem kjöt er hluti annarrar vöru, t.d. fyllt pasta og þess háttar. Er þá við það miðað að kjötinnihald sé ekki meira en 20% af heildarþunga vörunnar. Samkvæmt því eru ákvæði EES-samningsins því ekki til fyrirstöðu að innflutningur á lifandi dýrum og þeim kjötvörum, sem ekki falla undir EES-samninginn, sé heftur í þágu heilsu manna og dýra.  Hins vegar eru stjórnvöldum skorður settar við að grípa til slíkra takmarkana samkvæmt samningum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sbr. einkum samninginn um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna.

 

Ýmis efni úr dýrum, önnur en kjöt, kunna að vera í vörum sem falla undir EES-samninginn. Er þar bæði um að ræða vörur sem falla undir bókun 3 og vörur sem taldar eru upp í 25.-97. kafla samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskránnar. Með hliðsjón af því hve margar þær vörur eru sem falla undir EES-samninginn og hugsanlega kynnu að innihalda smitefni kúariðu verður að telja nánari afmörkun þessara vara sérstakt rannsóknarefni. Einnig þyrfti að kanna hvaða vörur, sem falla utan EES-samningsins og lúta samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna, fela í sér hættu á smiti.

 

Meginregla 11. gr. EES-samningsins, sem kveður á um bann við ráðstöfunum er hafa samsvarandi áhrif og magntakmarkanir, gildir um takmarkanir á innflutningi þeirra vara sem taldar eru upp í 25.-97. kafla samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskránnar auk þeirra vara sem tilgreindar eru í bókun 3. Almennt má ganga út frá því að hvers konar aðgerðir, sem lytu að því að banna eða takmarka innflutning á vörum af heilsufarsástæðum, teljist ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif og magntakmarkanir í skilningi 11. gr. EES-samningsins. Slíkar aðgerðir verða því aðeins réttlættar að þær styðjist við sérstakar heimildir EES-samningsins þar að lútandi. Sú heimild, sem fyrst og fremst kemur til greina að vísa til vegna hættu á útbreiðslu kúariðu, er í 13. gr. EES-samningsins.

Regla 13. gr. EES-samningsins heimilar innflutningstakmarkanir sem eru nauðsynlegar til að tryggja líf og heilsu manna eða dýra. Með hliðsjón af dómaframkvæmd Evrópudómstólsins má segja að tveimur grunnskilyrðum verði að vera fullnægt til þess að grípa megi til takmarkana. Annars vegar verður ríki að sýna fram á að atvik séu með þeim hætti að þeim hagsmunum, sem taldir eru upp í 13. gr. EES-samningsins, sé raunverulega ógnað. Hins vegar verður ríki að færa sönnur á að ráðstafanir þess séu til þess fallnar að vernda þessa hagsmuni og hindri ekki innflutning umfram það sem nauðsynlegt er í þeim tilgangi. Í síðastgreinda skilyrðinu felst m.a. að innflutningsríki verður að taka tilhlýðilegt tillit til reglna og eftirlits framleiðsluríkisins sem ætlað er að tryggja sömu hagsmuni og innflutningsríki leitast við að vernda með innflutningstakmörkunum. Sambærileg sjónarmið búa að baki samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna“.