Beint í efni

Aldrei lægra verð á mjólkurkvóta í Danmörku

08.11.2008

Verð á mjólkurkvóta hefur aldrei verið lægra í
Danmörku, en á nýafstöðnum kvótamarkaði. Verðið
nú er 1,55 DKK á kg, sem er fjórðungs verðlækkun
frá því markaður var síðast haldinn í ágúst.

Markaðurinn nú hafði öll einkenni kaupendamarkaðar,
en þetta er í 30. skipti sem kvótamarkaður er haldinn,
síðan slíku fyrirkomulagi var komið á fyrir 11 árum.
Til sölu voru boðin 62,5 milljón kg en eftirspurnin
var aðeins 32,5 milljón kg. Hin takmarkaða eftirspurn
hafði mikil áhrif til verðlækkunar, 1,55 DKK á kg eins
og áður segir. Til samanburðar var verðið í ágúst sl. 2,06
dkk/kg. Í ágúst í fyrra, þegar verð á mjólkurvörum á
heimsmarkaði steig með áður óþekktum hraða, var kvótaverðið
4,63 dkk/kg. Síðan þá hefur kvótinn verið aukinn um 2,5%
þann 1. apríl sl. og gefið hefur verið út að kvótinn aukist
um 1% á ári næstu fimm árin, þar til kvótakerfið verður
aflagt 1. apríl árið 2015, eftir sex og hálft ár.

Herluf Dose Christensen hjá samtökum afurðastöðva í Danmörku,
segir að fyrirsjáanleg endalok kvótakerfisins hafi mest áhrif
til verðlækkunar. Staða framleiðslunnar um þessar mundir hafi
einnig áhrif: „Vegna þess að kvótinn var aukinn, sé framleiðslan
34 milljónum kg undir landskvótanum. Það þýðir að margir framleiðendureru í þeirri stöðu að þeir búast ekki við að lenda í því að greiða offramleiðslusekt og þurfa þ.a.l. ekki að auka við kvótann.

Formaður Landssambands danskra kúabænda (Dansk kvæg) Peder Philipp, lítur á verðfallið sem hluta af eðlilegri þróun. „Fallandi kvótaverð sýnir að framleiðendur taka mið af stöðunni, sem er sú að kvótakerfið verður lagt af árið 2015. Annar þáttur sem hefur áhrif, er 2,5% kvótaaukningin frá því í apríl. Hún undirstrikar, að árleg aukning kvótans er besta og skynsamlegasta leiðin til að draga úr verðmæti hans, þar til hann verður verðlaus árið 2015“.

 

Í töflunni hér að neðan má sjá kvótaverð á síðustu 7 mörkuðum. DKK/kg mjólkur með 4,36% fitu.

 

Maí 2007 4,14
Ágúst 2007 4,63
Nóvember 2007 2,81
Febrúar 2008 2,01
Maí 2008 2,05
Ágúst 2008 2,06
Nóvember 2008 1,55

 

Heimild: Mejeriforeningen.