Aldrei fleiri heimsóknir á vef LK
20.01.2011
Árið 2010 var afar gott „vefár“ hjá LK en alls voru heimsóknirnar á naut.is rúmlega 100.000 og tæplega 340 þúsund flettingar samkvæmt samræmdri vefmælingu Modernus. Á venjulegum degi eru heimsóknir á vefinn um 280 talsins sem er afar góð niðurstaða fyrir jafn sérhæfðan vef og naut.is er. Alls voru settar á vefinn 470 fréttir á síðasta ári sem er ríflega tvöföldun frá árinu 2009.
Til fróðleiks má geta þess að fyrsta árið sem heimasíðan var tekin í notkun, árið 2001, var sett 31 frétt á vefinn. Alls hafa
á þessum 10 árum litið dagsins ljós rúmlega 1.800 sérhæfðar fréttir eða tilkynningar er varða búgreinina.
Á þessu tvöfalda afmælisári LK, þ.e. 10 ára afmæli vefsins og 25 ára afmæli samtakanna, mun nýtt vefútlit verða tekið í notkun. Vefnum hefur aðeins verið breytt einu sinni í allan þennan tíma, í desember 2005. Segir það sína sögu um hve vel tókst til með vefhönnunina strax í upphafi. Það er fyrirtækið Nepal í Borgarnesi sem bæði hannaði vefinn á sínum tíma og sér einnig um breytingarnar sem notendur vefsins munu njóta innan tíðar.