Beint í efni

Álagning á dieselolíu hefur aukist um 23%

13.08.2008

LK hefur safnað upplýsingum um innkaups- og útsöluverð dieselolíu (vélaolíu) síðustu 12 mánuði, frá júlí 2007 til júní 2008. Þar kemur fram að álagning olíufélaganna til að mæta flutningskostnaði og öðrum rekstrarkostnaði hefur aukist um tæp 23% á þessu ári. Fyrstu 6 mánuði þessa árs var hún 29,63 kr/ltr á móti 24,10 kr/ltr síðustu 6 mánuði ársins 2007, eins og sjá má í töflunni hér að neðan. Aukningin er 5,53 kr/ltr eða 23%. Á tímabilinu voru fluttar inn um 470 milljónir lítra af dieselolíu, þannig að auðséð er að hver króna pr. líter í aukna álagningu eru gríðarlegir fjármunir. Niðurstöður þessarar athugunar ríma mjög vel við hliðstæða athugun Félags íslenskra bifreiðaeigenda sem má sjá hér

Upplýsingar um innflutt magn og verð dieselolíu voru fengnar frá Hagstofu Íslands. Vörugjöld miðast við verðskrá Faxaflóahafna. Til að fá upplýsingar um útsöluverð var stuðst við verðlista á litaðri dieselolíu hjá Skeljungi hf. en það er eina fyrirtækið mér vitandi sem hefur bæði núgildandi og eldri verðlista aðgengilega á netinu, ástæða er til að þakka fyrir það. Til að minnka líkur á kerfisbundinni skekkju, var ætíð miðað við tvær verðskrár í mánuði, þá sem tók gildi sem næst miðjum viðkomandi mánuði og þá sem síðast tók gildi í sama mánuði. Meðal útsöluverð þessara tveggja verðskráa er notað til að reikna álagninguna í töflunni hér að neðan. Skjal með grunnupplýsingum er að finna hér.

 

Mánuður Innkaupsverð kr pr. 1.000 ltr. af dieselolíu  Álagning kr pr. ltr.
Júlí 2007 33.479 25,34
Ágúst 2007 35.627 23,24
September 2007 35.152 24,03
Október 2007 36.507 24,24
Nóvember 2007 39.916 24,65
Desember 2007 42.478 23,08
Janúar 2008 44.739 21,03
Febrúar 2008 43.554 27,71
Mars 2008 48.213 34,82
Apríl 2008 55.457 31,08
Maí 2008 65.913 32,51
Júní 2008 79.403 30,66

 

Það má því ljóst vera að olíufélögin hafa nýtt sér verð- og gengissveiflur til að auka álagninguna býsna rækilega. Mars er þar sér á parti, innkaup virðast hafa verið gerð áður en gengið gaf sem mest eftir, en gengið notað sem skálkaskjól til að hækka útsöluverðið langt umfram hækkun innkaupsverðs.

 

Mögulegt er að semja við þau um afslætti frá listaverði og er greinilega full ástæða fyrir viðskiptamenn að vera óragir við að krefjast verulega aukinna afslátta, lækki þau ekki verðið. Í dag kostaði líterinn af litaðri dieselolíu, án vsk., 108,11 kr hjá Olís, 107,31 kr hjá N1 og 106,51 kr hjá Skeljungi.

 

Einnig er ástæða til að geta þess að síðan í júní hefur útsöluverðið lækkað um ca. 5-6 kr/ltr. Hráolíuverðið var þá kringum 135 USD á tunnuna eins og sjá hér, en er í dag 115-116 dollarar. Gengi dals er nú um 82 kr sem er svipað og þá. Það er því alveg ljóst að olíufélögin skulda viðskiptamönnum sínum talsverðar lækkanir.