Beint í efni

Ákvörðun um heildargreiðslumark mjólkur

29.12.2021

Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað breytingu á reglugerð um stuðning við nautgriparækt, en þar er kveðið á um að heildargreiðslumark ársins 2022 verði 146,5 milljón lítrar af mjólk.

Heildargreiðslumark mjólkur er tiltekið magn mjólkur sem beingreiðslur ríkissjóðs miðast við og er ákveðið fyrir upphaf hvers verðlagsárs. Við ákvörðun þess skal byggt á neyslu innlendra mjólkurvara sem farið hafa um afurðastöðvar undanfarið tólf mánaða tímabil og áætlun ráðherra fyrir komandi verðlagsár, að teknu tilliti til birgða. Við mat á neyslu og birgðum skal miða við gildandi stuðla um samsetningu mjólkurafurða. Þá skal ráðherra byggja áætlun fyrir komandi verðlagsár á upplýsingum frá afurðastöðvum.

Framkvæmdanefnd búvörusamninga hefur fjallað um málið og lagði til við ráðherra að heildargreiðslumark ársins 2022 yrði 146,5 milljón lítrar. Forsendur nefndarinnar eru áætlun neyslu á innlendum mjólkurvörum sem gerir ráð fyrir svipaðri sölu og 2021. Hins vegar hafa stuðlar um samsetningu mjólkur tekið breytingum til hækkunar. Fitu- og próteininnihald mjólkur tekur sífellt náttúrulegum breytingum og nú hefur það þau áhrif að fleiri lítra mjólkur þarf til þess að framleiða sama magn mjólkurvara. Að teknu tilliti til þessa var gerð tillaga um ríflega 1% hækkun greiðslumarks frá fyrra ári.