
Áhugavert námskeið fyrir matarfrumkvöðla
13.02.2023
Hjá Austurbrú verður áhugavert námskeið haldið frá 21. febrúar - 21. mars undir yfirskriftinni Matarfrumkvöðullinn. Leiðbeinandi er Oddný Anna Björnsdóttir, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla og Beint frá býli. Námskeiðið er haldið í vefkennslu og er samstarfsverkefni Austurbrúar og Hallormsstaðaskóla.
Á námskeiðinu Matarfrumkvöðullinn farið yfir skrefin fá því að hugmynd kviknar þar til vara er komin á markað. Fjallað er um vöruþróun og það helsta sem hafa þarf í huga áður en lagt er af stað í þá vegferð; hvað standi smáframleiðendum til boða, hvernig sækja eigi um starfsleyfi, stofna fyrirtæki, gera viðskiptaáætlun, gæðahandbók og stefnumótandi áætlanir. Farið er yfir grunnstefið í matvælalöggjöfinni, fjármögnunarleiðir og helstu styrki í boði, kosti og galla ólíkra framleiðsluleiða, verðlagningu, söluleiðir og markaðsmál. Fjallað er um regluverkið í kringum matvælaframleiðslu, uppbyggingu stjórnsýslunnar og hvernig eftirliti er háttað. Farið er yfir uppbyggingu matvælamarkaðarins, ólíkar leiðir til að koma vöru í verslun eða beint til neytenda, þróunina á neytendamarkaði og tækifærin í betri merkingum matvæla.