Beint í efni

Áhrif fyrirhugaðs verkfalls Eflingar fyrir bændur

14.02.2023

Efling stéttarfélag hefur boðað til verkfalla í yfirstandandi kjaradeilu við Samtök atvinnulífsins (SA). Bændasamtökin munu aðstoða félagsmenn sína fyrir komandi verkfallsaðgerðir og greina hvaða áhrif þær munu hafa á starfsskilyrði landbúnaðarins, þ.e. dýravelferð, fæðuöryggi og dreifingu matvæla. 

Verkfallsaðgerðir hjá bifreiðastjórum í olíudreifingu hefst á hádegi 15. febrúar. Efling stéttarfélag starfrækir undanþágunefnd sem hefur það verkefni að veita undanþágur frá verkfalli til að tryggja almannaöryggi. Sækja þarf um undanþágur og tekur nefndin við öllu erindum þess efnis á netfangið undanthagunefnd@efling.is. Eyðublað til þess að óska eftir undanþágu er að finna á heimasíðu Bændasamtakanna - smellið hér

Afgreiðsla undanþágubeiðna hefst í dag, 14. febrúar og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Eflingar, munu umsækjendum berast svör svo fljótt sem auðið er. Formaður undanþágunefndar er Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar stéttarfélags.

Bændasamtök Íslands hafa verið í sambandi við Olíudreifingu sem sér um dreifingu og birgðahald á fljótandi eldsneyti. Samkvæmt upplýsingum frá Olíudreifingu mun afgreiðsla á eldsneyti með olíubílum á áhrifasvæði verkfallsins stöðvast að mestu. Áhrifanna mun því gæta frá höfuðborgarsvæðinu að Klaustri og að Staðarskála í vestri.

Við hvetjum félagsmenn okkar til þess að fylgjast með upplýsingum á heimasíðum olíufélaganna en þar verður að finna nánari upplýsingar um hvar sé hægt að nálgast eldsneyti hverju sinni.

Eftir samtal við Eflingu þá munu Bændasamtökin sækja um undanþágu frá verkfallsboðun fyrir bændur í matvælaframleiðslu á grundvelli sjónarmiða um dýravelferð meðal annars með tilliti til fóðrunar, aðbúnaðar og annarra nauðsynlegra aðfanga auk þess sem landbúnaður hefur hlutverki að gegna fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar. Jafnframt þurfa bændur og matvælaframleiðendur aðgengi að eldsneyti með vísan til almannahagsmuna, vegna persónulegra bráðatilvika, til að knýja varaaflstöðvar, tryggja að hægt sé að sækja dýralyf og fóður og að dýralæknar geti sinnt vitjunum.

Þá sendi stjórn Auðhumlu póst til félagsmanna sinna þar sem fram kom að ekki þurfi að hafa miklar áhyggjur af mjólkurflutningum. „Eingöngu bílstjórar sem eru félagsmenn í Eflingu sem fara í verkfall. Samkvæmt upplýsingum frá N1 – olíufélagi, sem er helsti eldsneytisbirgi Mjólkursamsölunnar, starfar Starfsgreinarsambandsfólk (SGS) á öllum stöðvum MS þar sem afurðastöðvar eru og mjólkurbílaflotinn er gerður út frá. Samkvæmt því segir N1 að það eigi ekki að verða truflun á afgreiðslu á olíu á bifreiðar MS. Með þessum ráðstöfunum þá telur MS að flutningakerfi félagsins, þ.e. mjólkursöfnun, millibúaflutningar og mjólkurvörudreifing eigi ekki að verða fyrir teljandi röskunum eða truflunum á starfsemi komi til verkfalls.“

Á meðfylgjandi mynd frá Olíudreifingu má sjá áhrifasvæði verkfallsins en áhrifanna gætir á því svæði sem er þjónustað með olíubíl frá birgðastöðinni í Örfirisey og afmarkað með rauðu línunni á kortinu.