Beint í efni

Áhersla lögð á landbúnaðarafurðir og fræðslu skólabarna

12.05.2023

Á þingmannafundi sem haldinn var í Strassborg á dögunum samþykktu Evrópuþingmenn skýrslu um framkvæmd næringar í skólakerfinu fyrir ávexti, grænmeti, mjólk og mjólkurvörur með miklum meirihluta (534 með, 57 á móti og 23 sátu hjá). Samtök bænda í Evrópu, Copa Cogeca, fagna samþykkt skýrslunnar, sem inniheldur einnig fræðslustefnu fyrir börn á skólaaldri í Evrópu.

Raunverulegt flaggskip sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar (CAP), skólakerfi ESB, hefur tryggt að milljónir nemenda í sambandinu njóta næringarríkrar fæðu meðan á menntun þeirra stendur. Ennfremur bætir kerfið þekkingu nemenda á því hvernig matur er framleiddur með nauðsynlegum fræðsluaðgerðum ásamt heimsóknum á sveitabæi og aukinni fræðslu í baráttunni gegn matarsóun.

Bændur í sambandinu fagna því ákalli að auka fjárveitingar, sérstaklega til að styrkja fræðsluaðgerðirnar. Þingmenn hafa nú opinberlega samþykkt skýrsluna og frekari viðeigandi breytingar fyrir evrópska bændur og landbúnaðarsamvinnufélög.

Evrópuþingmenn hafa nú tryggt að drykkir úr jurtaríkinu fara ekki inn í kerfið þrátt fyrir mikinn þrýsting og höfnuðu því alfarið ýmsum breytingartillögum sem lagðar voru fyrir þingið. Röksemdin var sú að slíkir drykkir eru aðallega framleiddir úr aðföngum sem innflutt eru til Evrópusambandsins og stríðir því gegn meginreglunni um stutta aðfangakeðju. Þar að auki koma drykkirnir ekki í stað mjólkurvara enda ekki sambærilegir á nokkurn hátt með tilliti til næringar úr mjólkurafurðum. Copa Cogeca skora nú á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að skoða vel hvað þingmennirnir hafa samþykkt og undirbúa endurskoðun á núverandi kerfi.

/Copa Cogeca - mynd UnSplash