Beint í efni

Áhersla lögð á fæðuöryggi, aukna verðmætasköpun og eflingu grunnrannsókna lífríkis í fjármálaáætlun

01.04.2023

Í nýútkominni fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að styrkja verðmætaskapandi greinar á málefnasviðum matvælaráðuneytisins.

Fæðuöryggi og loftslagsmál ásamt aukinni og fjölbreyttari landbúnaðarframleiðslu eru meðal áherslumála á málefnasviðum matvælaráðuneytis. Landbúnaðarháskóli Íslands skilaði nýverið skýrslu um aðgerðir til eflingar kornræktar á Íslandi, og um 2 milljarða króna aukning er í framlögum til málaflokksins til þess að hrinda aðgerðaáætluninni í framkvæmd.

Þeim fjármunum verður m.a. varið í verkefni í kornrækt sem snúa að plöntukynbótum, fjárfestingastuðningi til innviðauppbyggingar kornframleiðslu og þróunar jarðræktar á Íslandi. Með þeim aðgerðum má styðja við sjálfbærni matvælaframleiðslu Íslands og þar með styrkja fæðuöryggi þjóðarinnar.

Til að bregðast við áskorunum í sjávarútvegi og fiskeldi gerir fjármálaáætlun einnig ráð fyrir eflingu þessara málaflokka. Framlög til hafrannsókna og fiskveiðieftirlits verða aukin um þrjá milljarða króna á tímabilinu en markmiðið er að skapa sjávarútvegi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Öflugar hafrannsóknir og eftirlit með fiskveiðiauðlindinni eru forsenda þess að íslenskar sjávarafurðir séu samkeppnishæfar á alþjóðamörkuðum og að nýting sjávarauðlinda sé sjálfbær og stuðli að vexti íslensks atvinnulífs og samfélags.

Einnig er gert ráð fyrir framlögum sem nema 2,2 milljörðum króna til eflingar stjórnsýslu, eftirlits, leyfisveitinga og rannsókna í fiskeldi til að skapa megi greininni skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi.

/stjórnarráðið