Beint í efni

Agromek í 12. sinn – ef næg þátttaka fæst!

31.08.2009

Frá árinu 1999 hafa verið skipulagðar hópferðir á sýninguna og þrátt fyrir að annað hafi verið gefið út, hefur nú verið ákveðið að fara með einn hóp enn á þessa frábæru sýningu, ef næg þátttaka næst. Þema ferðarinnar í ár verður Hagkvæmar lausnir og sparnaður í rekstri og verða heimsótt bú og fyrirtæki valin út frá því. Að vanda verða heimsóknir á kúabú þó eins fjölbreyttar og unnt er að bjóða upp á. Eins og margir vita hefur Agromek landbúnaðarsýningin verið færð frá því í janúar yfir í nóvember ár hvert og verður ferðaskipulagið því eftirfarandi:

 

Sunnudagur 22. nóvember 2009:

Lagt af stað frá Keflavíkurflugvelli með Icelandair og lent í Kaupmannahöfn um eitt leitið. Ekið verður sem leið liggur til hótel Australia í Vejle (www.vejlehotel.dk) með tilheyrandi stoppum og heimsóknum til bænda og/eða í fyrirtæki. Undir kvöld verður komið á hótelið, sem er staðsett í miðjum bænum, rétt við göngugötuna. Vejle er einn fallegasti bærinn í Danmörku, í jaðri jökulruðningsins sem m.a. myndar Himmelbjerget.

 

Mánudagur 23. nóvember 2009:

Þennan dag verður farið á sýninguna (www.agromek.dk), sem verður opin frá kl. 9 til 16. Á sýningunni verða ýmis tilboð fyrir íslenska ferðalanga og umboðsmenn í mörgum að sölubásum sýningarinnar. Eftir sýninguna verður farið í heimsókn til eins bónda og reiknað er með að koma á hótelið aftur um kl. 19.

 

Þriðjudagur 24. nóvember 2009:

Þennan dag verður farið í heimsókn á kúabú og í kjölfarið til fyrirtækisins TBS sem Jötunn Vélar er meðeigandi að. TBS er sölu- og þjónustuaðili fyrir landbúnaðar vélar og er m.a. með umboð fyrir Fendt og Massey Ferguson. TBS er með þrjár starfsstöðvar og velti á síðasta rekstrarári um 6 milljörðum. Fyrirtækið verður skoðað og verður gestum svo boðið í léttan hádegisverð. Frá TBS verður farið á Agromek á ný en þennan dag lokar sýningin kl. 19. Brottför frá sýningarsvæðinu kl. 19:30 og komið á hótelið kl. 20:30.

 

Miðvikudagur 25. nóvember 2009:

Þennan dag verður farið í stutta skoðunarferð um Vejle og síðan ekið sem leið liggur til Kaupmannahafnar hvar farið verður í skoðunarferð. Eftir skoðunarferðina munu ferðalangar fá seinnipart dagsins til þess að spóka sig um í Kaupmannahöfn, t.d. í hinu jólaskreytta Tívolíi, áður en haldið verður af stað út á flugvöll og aftur heim á leið með kvöldflugi.

 

Agromekferðirnar eru skipulagðar af Snorra Sigurðssyni á Hvanneyri í samvinnu við ýmis fyrirtæki og þjónustuaðila bænda. Þar sem um hreina fagferð er að ræða, eins og alltaf þegar þessar ferðir hafa verið skipulagðar, er hægt að gjaldfæra að fullu ferða- og gistikostnaðinn á búrekstur vegna endurmenntunar.

 

Eins og undanfarin ár hafa Bændaferðir verið fengnar til þess að sjá um allt utanumhald ferðarinnar. Síðasti bókunardagur er 30. september nk. en vakin er athygli á því að lágmarksfjöldi í ferðina eru 20 manns. Verð per mann í tvíbýli eru kr 119.900,- miðað við gengið 24. ágúst 2009 (athugið að hægt er að lengja ferðina sé þess óskað). Allar nánari upplýsingar gefur Áslaug hjá Bændaferðum í síma 570 2790 eða Snorri í síma 843 5341.